Rafræn skilríki nauðsynleg í leiðréttingu

Kortalesari fyrir rafræn skilríki.
Kortalesari fyrir rafræn skilríki. Ernir Eyjólfsson

„Það er nokkuð ljóst að með svona ákvörðun mun fylgja ákveðið átak,“ segir Haraldur A. Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, en umsækjendur skuldaleiðréttingar þurfa að samþykkja ráðstöfunina með rafrænni undirritun. Nýtt eru rafræn skilríki sem fáanleg eru á kortum og símum. Ekki verður því nóg að nota veflykil ríkisskattstjóra, heldur verða rafræn skilríki nauðsynleg.

Haraldur segir það mikinn ábata fyrir íslenskt samfélag að almenningur geti rafrænt undirritað og auðkennt sig með þessum hætti„Þetta er náttúrulega eina leiðin til að undirrita og bakvið þetta er mikil löggjöf. Það er allt annað en veflykillinn þar sem það þarf bara notendanafn og lykilorð. Þetta er rafræn undirritun sem heyrir undir opinbert eftirlit.

Á ekki að vera hindrun

Rafræn skilríki hafa verið fáanleg á debetkort hjá bönkunum án endurgjalds síðan 2008, en samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum eru VISA og MasterCard debetkort ekki lengur virk sem rafræn skilríki þar. Ekki fengust upplýsingar frá öðrum bönkum um það hvort ennþá væri boðið upp á rafræn skilríki á debetkort. 

„Grunnástæðan er eðlileg þróun yfir á annan miðil og aðra tækni,“ segir Haraldur, en skilríkin eru jafnframt fáanleg í síma. Eins og staðan er í dag er Síminn þó eina símfyrirtækið sem býður upp á þessa þjónustu. Lokakosturinn er þá kort frá Auðkenni, en það þarf að kaupa og er verðið á slíku skilríki 10.990 krónur fyrir 1 ár.

Haraldur segir þetta ekki eiga að vera hindrun fyrir þá 69 þúsund sem sóttu um skuldaleiðréttingu. „Ef bankinn minn býður ekki uppá þetta og ekki símfyrirtækið þá á endanum gæti ég komið til Auðkenni. Við bjóðum öllum upp á það og fólk getur fengið kortið afhent í öllum bankaútibúum svo aðgengið er tryggt,“ segir hann. „Auðvitað kostar þetta allt saman og það er spurning hvort það gæti verið hindrun, en það má ekki gleyma að vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini kosta fullt af peningum.“

Aðgengi allra tryggt

Hann segir aðgengi allra að rafrænum skilríkjum verða tryggt. „Við erum að gera ráðstafanir og það er hitt og þetta sem við munum gera til að bæta aðgengið. Þetta er átak margra aðila; símafélaga, banka og ríkisins, sem sameiginlega standa að þessu og tryggja að þetta gangi sem best. Það er okkar hlutverk og áskorun núna að þetta gerist með sem bestum hætti.“

Haraldur segir um 100 þúsund manns vera með virk skilríki, en hingað til hefur alltaf verið hægt að fara aðrar leiðir. „Þetta verður því áskorun, sérstaklega ef það eru margir sem vilja fá ný skilríki. Það eru þá þeir sem ekki hafa séð ábatann á sínum tíma og hafnað skilríkjunum þegar bankarnir buðu þeim upp á þau.“

69 þúsund umsóknir um leiðréttingu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert