Rektor segir mikið í húfi

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands Ómar Óskarsson

Verði af verkfalli Félags prófessora við ríkisháskóla, sem félagsmenn samþykktu í fyrradag, mun um helmingur prófa í Háskóla Íslands fyrir jólin falla niður. Rektor skólans segir ástandið áhyggjuefni.

Í félaginu eru fastráðnir prófessorar við íslenska ríkisháskóla, þ.e. HÍ, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólann á Hólum. Fastráðnum dósentum og lektorum við þessa skóla er einnig heimil aðild að félaginu. 77% félagsmanna tóku þátt í kosningu um verkfall og yfir 80% þeirra samþykktu verkfallsaðgerðir 1. - 15. desember. Samningar hafa verið lausir síðan í mars og félagið mun funda með samninganefnd ríkisins á föstudag.

Alls eru 350 í félaginu og þar af starfa um 280 við Háskóla Íslands. Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, segir hugsanlegt verkfall mikið áhyggjuefni.

„Ef af verkfalli verður, hefði það veruleg áhrif hér í skólanum, sérstaklega á stúdenta því þetta myndi raska þeirra áætlunum og hafa áhrif á greiðslur úr lánasjóði,“segir Kristín og bætir við að verkfallið myndi einnig raska skipulagi skólans á vormisseri.

Hún segir að verkfallið hafi áhrif á u.þ.b. helming af þeim 500 prófum sem fyrirhuguð eru í desember.

Skólinn mun gera allt sem hann getur til að vinna að lausn málsins

Háskóli Íslands er ekki beinn aðili að kjaraviðræðunum, samninganefnd ríkisins á í viðræðum við félagið. „En skólinn mun gera allt sem hann getur til að vinna að lausn málsins, það er mikið í húfi,“ segir Kristín.

Spurð um hvaða viðhorf hún hafi til launakrafna prófessora segist Kristín ekki vera í aðstöðu til að tjá sig um þær. „En það er mikið hagsmunamál fyrir Háskóla Íslands að laun þeirra séu sanngjörn og samkeppnishæf.“

Prófessorar boða til verkfalls

„Það er ókyrrð í fólki yfir þessu“

Staða sem við viljum ekki vera í

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert