„Brotnaði niður og fór að gráta“

Edda Heiðrún Backman
Edda Heiðrún Backman Morgunblaðið/Kristinn

Edda Heiðrún Backman, leikari og málari, er ein af þeim sem nýta sér ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem legið hefur undir miklu ámæli að undanförnu. Strætó tók yfir rekstur þjónustunnar alls staðar á höfuðborgarsvæðinu, nema í Kópavogi, um áramótin og innleiddi nýtt kerfi sem hefur ekki virkað sem skyldi.

Edda bættist í stóran hóp þeirra sem eru ósáttir við þessa þjónustu eftir gærdaginn. Hún hringdi þá á bíl til að koma að heimili sínu því hún átti að mæta í sund. Bíllinn hinsvegar kom ekki á tilsettum tíma, heldur klukkutíma of seint og missti Edda því af sundinu – sem er henni svo mikilvægt.

Ekki var raunum hennar lokið því síðar um daginn þurfti hún aftur að panta ferð með þjónustunni. „Þá þurfti ég líka að bíða og bíða. Ég beið svo lengi að ég missti af klósettferð og átti bara að bíða og pissa á mig,“ segir hún og það má heyra á rödd hennar hversu reið hún er út í kerfið og þessar breytingar. „Ég verð ekki oft reið en ég er mjög reið eftir þennan dag. Mér féll allur ketill í eld, brotnaði niður og fór að gráta. Það er erfitt að panta bíl og bíða eftir einhverju sem kannski kemur ekki.“

Óöryggi, hræðsla og röskun

Starfandi formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar hefur gefið forráðamönnum Strætó frest til 23. janúar að skila áætlun um hvernig ráðin verði bót á þeirri stöðu sem er uppi vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Í yfirlýsingu sem réttindagæslumenn fatlaðs fólks í Reykjavík og á Seltjarnarnesi sendu frá sér á mánudag kom fram að fólkið hefði upplifað óöryggi, hræðslu og mikla röskun á sínu daglega lífi vegna ófullnægjandi þjónustu Strætó. Þá hefur Dagur B. Eggertsson beðið fatlað fólk afsökunar á þróun mála. „Það hefur valdið miklum vonbrigðum hvað breytt fyrirkomulag og tölvukerfi hefur farið illa af stað eins og fjölmörg dæmi sanna. Strætó baðst í gær velvirðingar og bað notendur þjónustunnar afsökunar á þeim óþægindum sem þeir hefðu orðið fyrir – og það geri ég sömuleiðis.“

Samráðshópur frá Strætó, sveitarfélögum og hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, Þroskahjálp og Öryrkjabandalaginu, fundaði í gær til að fara yfir framkvæmdina á samningnum en hópurinn á að hittast á fjögurra mánaða fresti. Honum var ekki lokið þegar Morgunblaðið fór í prentun í gær.

Í næstu viku hefur verið boðað til annars fundar með notendum nýja kerfisins þar sem hægt verður að koma með ábendingar og spyrja spurninga um hið nýja kerfi sem skellt var á kynningarlaust.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert