Lokun Laugavegs bitnar á íbúum Vatnsstígs

Sumargötur í Reykjavík voru opnaðar formlega á föstudag þegar Skólavörðurstíg …
Sumargötur í Reykjavík voru opnaðar formlega á föstudag þegar Skólavörðurstíg frá Bergstaðarstræti, Laugavegi frá Vatnsstíg að Bankastræti og Pósthússtræti var breytt í göngugötur. Af vef Reykjavíkurborgar

Íbúi við Vatnsstíg hefur sett af stað undirskriftarsöfnun á netinu vegna þess ónæðis sem íbúar götunnar verða fyrir eftir að Laugaveginum er lokað fyrir umferð yfir sumartímann. Hún skorar á Reykjavíkurborg að loka Laugaveginum allt frá Snorrabraut, ekki bara frá Vatnsstíg eins og nú er.

„Nú er að koma sumar og því fylgir gott veður, birta og gleði. Laugavegurinn lokar fyrir umferð og bærinn iðar af mannlífi. Ég gleðst á sumrin, ég bý í miðbænum og veit fátt skemmtilegra en að ganga niður Laugaveg á góðviðrisdegi laus við umferð og útblástur.

En það er þó eitt sem gerir þessa lokun að minni verstu martröð, ég bý við Vatnsstíg. Vatnsstígur er gatan sem Laugavegur er lokaður handan og því beinist nú öll umferðin af Laugavegi niður mína litlu götu. Það þýðir að það er stanslaus umferðaniður dag og nótt og útblásturinn er svo mikill að ég get ekki opnað gluggana hjá mér, og það er SUMAR!!

Við sem búum á Vatnsstíg höfum margoft spurt hversvegna umferðin þarf að beinast niður þessa litlu hliðargötu? Afhverju er lokunin ekki frá Frakkastíg eða Klapparstíg, götum sem liggja þvert á Laugaveg? En við fáum engin svör, það er nefnilega engin lógík fyrir því að umferðinni er beint hér niður, það er pólitík sem ræður því. Einhverjar hálfkæringslegar málamiðlanir við útvalda kaupmenn á Laugavegi gera það að verkum að honum er ekki öllum lokað heldur einungis að hluta til og við sem hér búum þurfum að líða fyrir það.

Er stefna Reykjavíkurborgar að reka fjölskyldufólk og íbúa úr miðbænum og hafa hér einungis hótel og túrista?

Hversvegna er skrefið ekki tekið til fulls og Laugveginum öllum lokað á sumrin?

Það eru ekki nægilega góð rök kaupmanna að eldri borgarar og fatlaðir komist ekki leiðar sinnar ef götunni er lokað, þau geta ekki lagt bílum sínum fyrir utan verslanirnar í Kringlu og Smáralind heldur, þau þurfa að koma sér frá bílastæðinu. Hliðargöturnar á Laugavegi eru með stuttu millibili. Hvernig væri að eyða þeim fjármunum sem fara í að laga slitlag Laugavegs eftir bílaumferð  í að laga aðgengi í verslanir og veitingastaði fyrir fatlaða?

Ég hugsa að  flestir íbúar miðborgar og einnig flestir sem hann sækja séu hlynnt Laugavegslokun, að fullu.

Ég skora á ykkur kæra borgarstjórn að loka Laugaveginum öllum frá Snorrabraut svo allir geti notið Sumargötunnar en ekki bara sumir,“ segir í áskoruninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert