Málaður upp sem skrímsli

Gunnar Scheving Thorsteinsson
Gunnar Scheving Thorsteinsson mbl.is/Kristinn

„Þetta er gríðarlega mikill léttir og málið fór eins vel og hugsast gat,“ segir lögreglumaðurinn Gunnar Scheving Thorsteinsson, sem í mars var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í LÖKE-málinu svokallaða. Upphaflega voru þrír menn grunaðir í málinu, en auk Gunnars voru starfsmaður símfyrirtækis í Reykjavík og lögmaður handteknir í fyrra.

Frétt mbl.is: Lögreglumaður í LÖKE-máli sýknaður

Var Gunnar m.a. grunaður um að hafa flett upp konum í innra kerfi lögreglunnar, LÖKE, og deilt upplýsingum um þær á lokuðum Facebook hóp með hinum handteknu mönnunum. Fljótlega var hins vegar fallið frá máli á hendur tvímenningunum og var ákveðið að ákæra Gunnar í tveimur liðum. Annars vegar fyrir uppflettingar í LÖKE milli 2007 og 2013 og hins vegar fyrir að hafa greint vini sínum frá því á Facebook að hann hefði verið skallaður af ungum dreng við skyldustörf. Taldi saksóknari brotin varða við 1. málsgrein 136. greinar og 139. grein almennra hegningarlaga. Málið var þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur í ágúst í fyrra.

Gunnar var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Gunnar var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

„Fyrsti ákæruliðurinn tilbúningur“

Ríkissaksóknari féll hins vegar frá fyrri ákæruliðnum í mars síðastliðnum. „Fyrsti ákæruliðurinn var bara tilbúningur til þess að fela það að ekkert hafi komið í ljós við rannsókn. Þetta var aldrei alvöru ákæruliður og ég benti á það frá upphafi,“ sagði Garðar Steinn Ólafsson, verjandi Gunnars, við það tilefni.

Frétt mbl.is: Ekki ákærður fyrir að fletta upp konum

„Mér fannst betra að fá niðurfellingu á þessu rugli en sýknu, enda sýndi það hversu mikil vitleysa þetta var,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.

Hann var sýknaður af síðari ákæruliðnum í héraðsdómi í mars og tók aftur til starfa í kjölfarið.

„Það var gott að koma aftur til starfa og ég fékk hlýjar móttökur frá félögum mínum og nánustu yfirmönnum. Margir þeirra sem höfðu snúið við mér baki báðust afsökunar og einnig var fólk sem lýsti yfir stuðningi við mig og ánægju með að fá mig aftur,“ segir Gunnar. Hann segir málið þó hafa reynst sér þungbært, og verður enn fyrir áreiti vegna þess.

„Ég er búin að endurheimta margt af því sem ég missti, en svona tjón verður náttúrulega aldrei fyllilega bætt,“ segir Gunnar. „Ég er kátur og mér líður mun betur í dag en það er þó grunnt í gremju og ósætti við að hægt hafi verið að gera mér þetta að ósekju.“

Málaður upp sem skrímsli

Hann kveðst hafa orðið fyrir talsverðu áreiti frá upphafi málsins. „Mín upplifun þegar fjölmiðlaumfjöllun fór af stað var sú að þar ætti að mála mig upp sem eins mikið skrímsli og hægt var. Ég varð fyrir talsverðu aðkasti í mínu einkalífi, en ekki mjög mikið á internetinu. Þó var t.d. einhver maður sem sá sig knúinn til að senda mér Facebook póst um að hann „hataði mig“,“ segir Gunnar. Þá segir hann nokkra vini sína á Facebook hafa dottið út af vinalistanum og upplifði það sem mikinn áfellisdóm. Hann varð fyrir miklu áreiti í skemmtanalífinu, og verður enn, en hann varð fyrir líkamsárás á skemmtistað fyrir tæplega tveimur vikum. 

„Þarna var maður sem ég kannast lítillega við, hann vildi fá staðfest að ég væri „Gunnar í LÖKE“ og réðst síðan á mig með líkamlegu ofbeldi sem hefur nú verið kært til lögreglu.“

Gunnari var m.a. gefið að sök að hafa viðhaft óeðlilegar …
Gunnari var m.a. gefið að sök að hafa viðhaft óeðlilegar uppflettingar í LÖKE, málaskrárkerfi lögreglunnar. AFP

Notar kerfið sem minnst

LÖKE er eins konar málaskrárkerfi lögreglunnar, en þar sinna lögreglumenn hinum ýmsu daglegu störfum. „Þetta er í raun grunnkerfi fyrir alla löggæslu í landinu. Fyrsta verk þitt á daginn er að kveikja á kerfinu og síðasta verkið að setja inn mál dagsins og loka því,“ segir Gunnar. Hann segir notkun lögregluþjóna á kerfinu ekki hafa breyst mikið eftir að mál hans náði hámarki, en þó hafi starfsreglum verið breytt lítillega. Málið var hið fyrsta þar sem ákært var vegna meintrar misnotkunar á LÖKE. Gunnar telur hins vegar að hægt væri að finna einhverja meinta misbresti á notkun hvers einasta lögreglumanns á kerfinu ef vilji stæði til þess.

Frétt mbl.is: 41 kona í stað 45

„Í yfirheyrslum var ég m.a. spurður út í uppflettingar sem klárlega tengdust starfi mínu, en ég mundi einfaldlega ekki eftir þeim. Mér var tjáð að ég hefði flett upp hinum og þessum án þess að hafa haft erindi til þess, en ég sagðist ekki hafa hugmynd um uppflettingarnar. Þegar þetta var rannsakað betur reyndist ég hafa handtekið menn í málunum og var jafnvel skýrsluritari. Það er erfitt að muna öll mál langt aftur í tímann," segir Gunnar.

Notar þú kerfið öðruvísi eftir að hafa lent í þessari reynslu?

„Ég reyni að nota það sem minnst.“

Féll fyrir lögreglustarfinu eftir sumarafleysingar

Gunnar er alinn upp í Reykjavík, gekk í MR og fór sem afleysingamaður í lögregluna að loknu stúdentsprófi. „Það hafði alltaf blundað í mér einhver draumur um að fara í lögguna, en ég ætlaði hins vegar að læra lögfræði. Eftir sumarlögguna heillaði þetta hins vegar meira og ég ákvað að vinna að starfsframa í lögreglunni.“

Hann kveðst hafa verið langt niðri þegar málið stóð sem hæst og allt eins búist við að það færi á versta veg. „Ég gerði mig alveg berskjaldaðan fyrir því. Maður vonar það besta og býst við því versta,“ segir Gunnar, og bætir því við að hann eigi lögmanni sínum mikið að þakka.

„Ég er sannfærður um að ég hefði verið sakfelldur í nóvember þegar málið átti fyrst að fara í aðalmeðferð ef ég hefði ekki haft Garðar Stein sem minn lögmann. Málið fór svona vel vegna þess að ég var með lögmann sem var tilbúinn til að vinna fyrir mig og virkilega keyra mitt mál áfram. Það er ekkert auðvelt að sanna sakleysi sitt þegar maður stendur á móti þessu bákni sem ríkisvaldið er.“

Gunnar byrjaði lögregluferil sinn í sumarafleysingum.
Gunnar byrjaði lögregluferil sinn í sumarafleysingum. mbl.is/Malín

Málið var í tæpt ár í réttarkerfinu, en Gunnar var frá lögreglustörfum á meðan. Hann kveðst hafa verið mjög þunglyndur og gert lítið á daginn. Hann þakkar fjölskyldu sinni og vinum hins vegar mikinn stuðning, sem hann segir hafa reynst ómetanlegan. 

„Undir lokin fékk ég reyndar vinnu í fataverslun og seldi skyrtur og kjóla,“ segir Gunnar.

Þú hefur ekki fundið þig í sölu kjóla og skyrta?

„Jújú, það var alveg gaman. En það er vissulega mjög sérstakt að fara úr því að vera lögreglumaður yfir í að leiðbeina fólki um tísku.“

Áfrýjað til Hæstaréttar

Saksóknari áfrýjaði niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar. Lögmaður Gunnars kveðst ekki hafa fengið senda greinargerð, heldur einungis plagg þar sem kemur fram að málinu verði áfrýjað, og er því ekki ljóst á hverju ákæruvaldið hyggst byggja. „Ef saksóknarinn í málinu hefði einhvern tímann raunverulega talið að hægt væri að ná þarna fram sakfellingu hefðu vitni á borð við lögreglumennina sem tóku skýrslu aldrei verið afboðuð,“ segir Garðar Steinn, en hann bendir á að málinu hafi einungis verið haldið til streitu að kröfu ríkissaksóknara.

Frétt mbl.is: Saksóknari áfrýjar í LÖKE-málinu

„Ég á erfitt með að sjá hvað þau ætla að nefna. Það er enginn vitnisburður, það er ekki deilt um sönnun eða neitt slíkt. Þetta er einfaldlega lagatúlkunarlegt atriði. Ég tel því ólíklegt að hæstiréttur verði ósammála dómaranum í Héraðsdómi um niðurstöðu málsins, enda var þetta mjög vel rökstuddur dómur.“

Ræddi við trúnaðarvin

Gunnar segir báða upphaflegu ákæruliðina hafa verið fjarstæðukennda.

„Ég var í lokuðum Facebook-hóp með vinum mínum þar sem við vorum að spjalla saman um okkar einkamálefni og annað eftir því. Á sama tíma var ég að taka saman við fyrrum unnustu mína og hún fór og skoðaði þessi gögn. Þá fór einhver atburðarás af stað sem olli því að gögnin enduðu í höndunum á lögreglunni á Suðurnesjum og þá hófst þessi mjög sérkennilega rannsókn.“

Frétt mbl.is: Þrír með réttarstöðu sakbornings

Hvað varðar seinni ákæruliðinn kveðst Gunnar hafa verið í fullum rétti þegar hann ræddi við vin sinn um dreng sem veittist að honum við skyldustörf. Þannig hafi hann upplifað sig sem þolanda í málinu og rætt upplifunina við trúnaðarvin sinn.

„Ég var skallaður í andlitið og það var hrækt framan í mig. Þessi trúnaðarvinur minn vinnur með andlega veikum einstaklingum og gat því gefið mér ráð. Okkar samræður urðu til þess að ég sótti drenginn ekki til saka fyrir það ofbeldi sem ég varð fyrir.“ 

Gunnari var frá störfum á meðan málið var rekið.
Gunnari var frá störfum á meðan málið var rekið. mbl.is/Ómar

Góðu stundirnar yfirvinna erfiðleikana

Tveir vinir Gunnars sem upphaflega voru handteknir urðu að hans sögn fyrir miklu áfalli þegar málið fór af stað. Þannig hafi atvinnumissir og slúðursögur reynst þeim erfiðar þrátt fyrir að þeir væru aldrei nafngreindir. Mál þeirra séu hins vegar að komast á réttan kjöl í dag. 

Frétt mbl.is: Krefja ríkið um skaðabætur

„Blessunarlega í dag hafa þeir verið hreinsaðir af öllum sökum og annar hefur fengið vottorð frá ríkissaksóknara þess efnis að hann hafi verið órétti beittur. Hinn fær það ekki vegna þess að hann vill ekki láta eftir réttinn til að sækja sér bætur vegna málsins,“ segir Gunnar.

Hann kveðst ekki vera orðinn afhuga lögreglustörfum þrátt fyrir áföllin síðustu misseri. Hann segir starfið krefjandi og lögregluþjónar verði reglulega fyrir aðkasti og ofbeldi, en góðu stundirnar yfirvinni þó erfiðleikana. „Það er einfaldlega eitthvað sem heillar mig við þetta. Þegar maður nær að skila af sér einhverju góðu og sér að maður er að gera gagn þá eru það mikil verðlaun.“

Nefnd um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að rangt hefði verið að víkja Gunnari tímabundið úr starfi. Segir m.a. í áliti meirihluta nefndarinnar að sú háttsemi sem Gunnar var grunaður um hafi ekki verið fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar um að víkja honum frá störfum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert