Ísland taki á sig hluta vandans

AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill að EFTA-ríkjunum Íslandi, Noregi, Sviss og Liechtenstein verði gert að taka þátt í að veita þeim hundruðum þúsunda flóttamanna hæli sem komið hafa til ríkja sambandsins að undanförnu. Hugmyndir framkvæmdastjórnarinnar hafa gengið út á að deila fljóttamönnunum niður á milli ríkja Evrópusambandsins.

Þetta kemur fram á fréttavefnum Euobserver.com og er vísað í tillögur sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt fram. Ástæðan er aðild EFTA-ríkjanna að Schengen-samstarfinu sem felur í sér að hefðbundið landamæraeftirlit hefur verið fellt niður á milli aðildarríkja þess. Á móti er gert ráð fyrir því að landamæraeftirlit á ytri mörkum svæðisins sé eflt, en auk EFTA-ríkjanna eru flest ríki sambandsins einnig aðilar að samstarfinu.

Vegna þess fjölda flóttamanna sem komið hefur til Evrópusambandsins að undanförnu hefur ekki reynst mögulegt að halda uppi því landamæraeftirliti á ytri mörkum Schengen-svæðisins sem samstarfið gerir ráð fyrir. Ekki síst í Ungverjalandi. Hafa ýmis ríki Evrópusambandsins, líkt og Austurríki og Danmörk, komið á aukinni gæslu á eigin landamærum.

Fram kemur í tillögum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem lagðar voru fram í gær, að neiti EFTA-ríkin að taka þátt í aðgerðum sambandsins geta þau átt á hættu að verða beitt refsiaðgerðum. Þannig gætu þau verið útlokuð frá þeim hluta Schengen-samstarfsins sem byggir á Dyflinar-reglugerðinni svonefndri. Samkvæmt henni ber flóttamönnum að sækja um hæli í því aðildarríki sem þeir koma fyrst til.

Haft er þó eftir tveimur ónafngreindum embættismönnum að ekki sé ljóst hvernig mögulegar refsiaðgerðri horfi við lagalega séð. Skoða þurfi það nánar. Eftir sem áður segir í fréttinni að efni tillögu framkvæmdastjórnarinnar sé skýrt. EFTA-ríkin hafi öll gengist undir Dyflinar-reglugerðina. Þá sé skýrt tekið fram að ríkin muni ekkert hafa um útfærslu tillögu framkvæmdastjórnarinnar að segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert