Meiri vindorka en ofan Búrfells

Vindmillur við Búrfell
Vindmillur við Búrfell mbl.is/Árni Sæberg

Nokkrir staðir við Vatnaleiðina á Snæfellsnesi gætu hentað vel fyrir vindmyllur, samkvæmt meistararitgerð eftir Bandaríkjamanninn Michael Stephen Doheny, sem stundað hefur meistaranám við Íslenska orkuskólann í Háskólanum í Reykjavík. Doheny flytur fyrirlestur um verkefni sitt í HR næstkomandi mánudag, en það var unnið í samstarfi við Landsvirkjun.

Útreikningar Doheny benda til að hentugasti staðurinn sé skammt norðan við Vegamót, en alls skoðaði hann fjóra staði á Snæfellsnesi sem þóttu hvað hagkvæmastir. Áætlar hann að vindmyllur sömu gerðar og hafa verið reistar hjá Landsvirkjun ofan Búrfells í Þjórsárdal myndu framleiða 3.669 MWstundir á ári, sem er töluvert meira en vindmyllurnar ofan Búrfells hafa framleitt.

Leiðbeinendur í verkefninu voru Margrét Arnardóttir, verkefnisstjóri vindorku hjá Landsvirkjun, og Páll Jensson, prófessor við HR. Prófdómari er Stefán Kári Sveinbjörnsson.

Skoðaði ekki bara vindhraðann

Markmið verkefnisins var að þróa aðferðafræði til að skoða hvar hentugt væri að reisa vindmyllur á Íslandi. Út frá upplýsingum um meðalvind segist Doheny hafa ákveðið að leggja áherslu á Snæfellsnes í greiningu sinni, þar sem um vindasamt svæði sé að ræða. Þegar búið var að taka tillit til svæða sem ekki kæmu til greina undir vindmyllur kom í ljós að 56% af landsvæði Snæfellsness reyndist ákjósanlegur kostur fyrir nýtingu vindorku. Skoðaði Doheny alls 43 þætti og þóttu fjórir þeirra hvað hagkvæmastir. „Ég vildi taka inn í útreikninga mína fleiri þætti en hafa kannski verið skoðaðir til þessa,“ segir Doheny við Morgunblaðið, en hann skoðaði ekki bara vindhraða heldur einnig umhverfis- og félagslega þætti eins og möguleg áhrif á ferðamennsku, hljóðmengun og sjónmengun. Þá skoðaði hann jarðvegsgerð, hættu á ísingu, nálægð við vegi og flutningslínur fyrir rafmagn. Út frá þessum upplýsingum valdi hann fjóra hentuga staði við Vatnaleiðina á austanverðu nesinu. Vonast hann eftir því að rannsóknin geti komið sér til góða fyrir þá sem þurfa að ákveða staði fyrir vindmyllur og hagkvæmni þeirra. Hyggst hann kynna niðurstöðurnar fyrir orkufyrirtækjum í Bandaríkjunum, en þar á sér stað mikil uppbygging í vindorku.

Áður en Doheny lauk háskólanámi vestanhafs starfaði hann í olíuiðnaði hjá fyrirtæki í N-Dakota.

„Ég vonast til að geta komið aftur til Íslands og fengið starf hjá Landsvirkjun við uppbyggingu á vindmyllum, þó að ekkert slíkt hafi verið til staðar í dag,“ segir Doheny, sem fer aftur heim til Bandaríkjanna eftir að hafa lokið meistaranáminu hér.

Einblínt á Búrfell og Blöndu

Margrét Arnardóttir segir verkefnið áhugavert en Landsvirkjun hafi til þessa ekki verið að skoða Snæfellsnes sem svæði undir vindorkuver. Áhersla sé lögð á uppbyggingu í Búrfelli og Blöndu og engar ákvarðanir hafi verið teknar um aðra staði.

Margrét segir marga staði á Íslandi koma til greina en ítarlegar rannsóknir og mælingar þurfi að fara fram áður en teknar séu ákvarðanir um að reisa vindmyllur. Hún segir mælingar Dohenys gefa góða vísbendingu um möguleika til vindorkuframleiðslu á þessum slóðum.

Michael Stephen Doheny hefur stundað meistaranám við Íslenska orkuskólann í …
Michael Stephen Doheny hefur stundað meistaranám við Íslenska orkuskólann í Háskólanum í Reykjavík. Ljósmynd/Johanna Vigdis Gudmundsdottir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert