Þótt reynt sé að miða við skilgreiningar í lögum þegar dvalarleyfismál eða mál hælisleitenda eru afgreidd þá er alltaf eitthvað mat sem þarf að koma til. Það er því í raun Útlendingastofnun sem tekur ákvörðun sem snertir mannúðarliðinn í lögum um útlendinga, sem fyrsta stjórnsýslustig þessa málaflokks. Þetta segir Kristín María Gunnarsdóttir, staðgengill forstjóra stofnunarinnar, í samtali við mbl.is.
Síðustu daga hefur mikið verið fjallað um ákvörðun stofnunarinnar að vísa úr landi albanskri fjölskyldu með tvö börn. Er annað barnið með slímseigusjúkdóm. Var þess meðal annars krafist af innanríkisráðherra, Ólöfu Nordal, að hún myndi skipta sér af málinu og leyfa fólkinu að vera hér á landi. Sagði Ólöf í viðtali við mbl.is að hún hefði ekki stöðu til að skipta sér af málinu.
Kristín segir að stofnunin sé sjálfstæð í verkum, en að hún sé undirstofnun innanríkisráðuneytisins og því geti ráðherra tekið stefnumótandi ákvarðanir sem farið sé eftir, líkt og gert var þegar ákveðið var að senda flóttafólk ekki aftur til Grikklands.
Í lögum um útlendinga eru ákvæði um dvalarleyfi og þar eru meðal annars eftirfarandi liðir:
„Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr., ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla hans við landið.
[Veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.“
Í skýringum með lögunum má svo finna eftirfarandi texta:
„Með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum er, í samræmi við framkvæmd í öðrum löndum, miðað við atriði á borð við það hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm er að ræða sem meðferð er til við hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Ef um langvarandi sjúkdóm er að ræða eru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur er á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hefur hafist hér á landi og ekki er læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varða félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.“
Aðspurð út í mat stofnunarinnar í tilfellum þar sem um sjúkdóma eða veikindi er að ræða segir Kristín að það geti til dæmis komið upp tilvik þegar fólk kemur frá mjög fátæku ríki þar sem heilbrigðiskerfið bíður ekki upp á neina meðhöndlun. Segir hún að slíkum tilfellum fái viðkomandi meðferðaúrræði hér. „Það þarf að vera virkt heilbrigðiskerfi í boði í landinu og fólk þarf að hafa aðgang að henni,“ segir Kristín.
Bent hefur verið á að mál séu oft lengi til meðferðar hér á landi áður en niðurstaða kemst í mál hælisleitenda. Segir Kristín að málsmeðferðartíminn hafi dregist talsvert saman undanfarin ár og nú sé meðaltalið undir 90 dögum. Bent hefur verið á að afgreiðslutími í Noregi geti verið allt niður í tvo sólarhringa, en Kristín segir að þar séu aðstæður allt aðrar en hér. Þannig sé stór deild þar með mannskap sem þekki vel til aðstæðna í hverju landi fyrir sig. Hér á landi þurfi á móti stundum að gera grunnrannsókn á aðstæðum í viðkomandi landi og ekki alltaf starfsmenn sem hafi sérfræðiþekkingu á aðstæðum í viðkomandi landi.
Þá hafi viðkomandi ýmis réttindi og framkvæmdin sé þannig að það geti dregið úr hraða málsins. Nefnir hún að eftir komu til landsins taki lögregla skýrslu og fingraför af viðkomandi. Síðar sé viðkomandi boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun sem taki jafnvel margar klukkustundir. Í framhaldinu skili talsmenn hælisleitenda greinargerð og svo sé málið skoðað hjá Útlendingastofnun, en ítarlega sé farið í hvert og eitt mál og ekki fyrirfram ákveðin niðurstaða eftir því frá hvaða landi viðkomandi komi.
Segir Kristín að þá geti tekið tíma að afla gagna eins og að fá skýrslur og sérfræðimöt. Eftir niðurstöðu Útlendingastofnunar geti viðkomandi kært úrskurðinn og tekur þá kærunefnd við og það geti tekið nokkra mánuði. Heildarferlið sé því orðið nokkuð langt þótt meðaltal Útlendingastofnunar sé undir þremur mánuðum og mörg mál klárist á einum mánuði.
Hælisleitendur frá Albaníu hafa verið nokkuð fjölmennir upp á síðkastið og staðfestir Kristín að svokölluð Kanun lög, eða blóðhefnd, þaðan séu stundum gefin upp sem ástæða þess að fólk sækir um hæli. Ganga lögin út á að fjölskylda geti hefnt fyrir miska eða morð á þeim sem olli miskanum eða öðrum fjölskyldumeðlimi.
Segir Kristín þessi lög aftur á móti með öllu bönnuð í Albaníu í dag og að allskonar samtök þar hafi hjálpað fólki að komast út úr aðstæðum og sætta fjölskyldur þar sem slík mál hafa verið í gangi. „Þessar hefndaraðgerðir eru ólöglegar,“ segir hún og að búið sé að veita styrki í að útrýma svona málum og að albanska ríkið taki þessum blóðhefndardeilum alvarlega og að allir þeir sem verði uppvísir að glæpsamlegri háttsemi vegna þeirra séu ákærðir. Því sé talið að Albanía sé með innviði til að takast á við slík mál.