Meta ástæður til áfrýjunar

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, segir að eftir eigi að meta hvort ástæða sé til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um að ríkinu sé skylt að loka NA/SV-flugbraut Reykjavíkurflugvallar til Hæstaréttar. Hún hefur enn ekki haft tækifæri til þess að fara yfir dóm Héraðsdóms.

Samkvæmt dómnum sem féll í dag þarf ríkið að loka flugbrautinni, sem stundum hefur verið nefnd „neyðarbraut“ í umræðum um flugvöllinn, og endurskoða skipulagsreglur til samræmis við lokunina innan sextán vikna. Loki ríkið ekki flugbrautinni þarf það að greiða Reykjavíkurborg eina milljón króna í sekt á dag. Vísar dómurinn í yfirlýsingu sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, skrifaði undir í október 2013.

„Ég á eftir að sjá þennan dóm, lesa hann og fara yfir hann og við gerum það bara. Við eigum eftir að meta hvort við teljum ástæðu til að fara með þetta fyrir Hæstarétt,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is.

Ráðherrann var staddur utanbæjar þegar blaðamaður náði tali af honum og sagðist því ekki geta tjáð sig mikið um niðurstöðu Héraðsdóms að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert