„Þetta setur allt úr skorðum“

Yfirvinnubann flugumferðarstjóra mun hafa áhrif á um 20 flug WOW …
Yfirvinnubann flugumferðarstjóra mun hafa áhrif á um 20 flug WOW air í nótt. Ljósmynd/WOW

„Okkur finnst bagalegt að flugvellinum sé lokað í svona langan tíma,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi flugfélagsins WOW air, en yfirvinnubann flugumferðarstjóra mun hafa áhrif á um 20 ferðir flugfélagsins í nótt.

Þjónusta á flugvellinum verður takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug frá 02:00 í nótt til 07:00 í fyrra­málið, en ástæðan er að tveir flug­um­ferðar­stjór­ar sem áttu að vera á vakt­inni í nótt eru veik­ir og vegna yf­ir­vinnu­banns fást ekki flug­um­ferðar­stjór­ar til af­leys­inga.

Hefur keðjuverkandi áhrif

Meðan á tak­mörk­un­inni stend­ur eru 20 vél­ar áætlaðar til komu frá Norður-Am­er­íku og sjö til brott­far­ar til Evr­ópu. Þó er ljóst að yfirvinnubannið mun hafa áhrif á fleiri flug, þar sem tafir á flugi hafa keðjuverkandi áhrif. 

„Þetta setur allt úr skorðum og svo koma keðjuverkanir í kjölfarið,“ segir Svanhvít, en bætir við að um leið og flugvöllurinn verði opnaður klukkan sjö í fyrramálið verði farið á fullt við að koma fólki á leiðarenda.

Bitnar á röngum aðilum

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair segir takmörkunina hafa áhrif á rúmlega 30 flug hjá flugfélaginu í nótt og í fyrramálið. „Þetta eru áframhaldandi truflanir sem þessar aðgerðir hafa í för með sér,“ segir hann og bendir á að síðustu fjóra daga hafi það einnig sýnt sig að flug hafi tafist á morgnanna vegna aðgerðanna. 

Þá segir hann ástandið afar slæmt, og bitna á röngum aðilum. „Þetta er ástand sem verður að bregðast við. Þetta veldur tugþúsundum farþega óþægindum og raskar flugi,“ segir hann.

Fé­lag ís­lenskra flug­um­ferðar­stjóra (FÍF) og Sam­tök at­vinnu­lífs­ins (SA) fyr­ir hönd Isa­via standa nú í kjaraviðræðum og hef­ur þeim verið vísað til rík­is­sátta­semj­ara. Viðræður hafa staðið yfir frá því í nóv­em­ber en síðasti fund­ur var hald­inn 20. maí síðastliðinn. Rík­is­sátta­semj­ari hef­ur ekki boðað til næsta fund­ar í viðræðunum, seg­ir enn frem­ur í til­kynn­ing­unni.

Yf­ir­vinnu­bann FÍF hef­ur staðið yfir frá 6. apríl.  

Farþegar sem eiga bókað flug á þess­um tíma eru hvatt­ir til að fylgj­ast með flugáætl­un­um á www.kefairport.is eða vef síns flug­fé­lags.

Frétt mbl.is: Ekkert áætlunarflug í nótt vegna yfirvinnubanns

Frétt mbl.is: Yfirvinnubann jafngildir verkfalli

Þjónusta á flugvellinum verður takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug frá …
Þjónusta á flugvellinum verður takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug frá 02:00 í nótt til 07:00 í fyrra­málið. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert