Stjórnvöld grípa inn í kjaradeilu

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. mbl.is/Golli

Innanríkisráðherra kynnti frumvarp til laga um kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra á fundi ríkisstjórnar í morgun. Viðsemjendur í kjaradeilu flugumferðarstjóra og ISAVIA fá frest til 24. júní til að semja. Þetta sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra í samtali við RÚV.

Frumvarpið felur einnig í sér að flugumferðarstjórar hætti aðgerðum sínum, yfirvinnu- og þjálfunarbanni, strax en Alþingi verður kallað saman innan skamms.

Takist það ekki verður skipaður gerðardómur til að úrskurða um laun flugumferðarstjóra.

Nú verður málið kynnt fyrir stjórnarandstöðuflokkunum.  

Yfirvinnubann flugumferðarstjóra hefur verið í gildi frá 6. apríl sl.

Frétt mbl.is: Alþingi kemur saman vegna kjaradeilu

Fram kom í Morgunblaðinu í gær, að yfirvinnubann flugumferðastjóra hefði valdið seinkunum um 1.200 flugferða í heild, að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair. „Það þýðir að um 200 þúsund farþegar Icelandair hafa lent í þessum töfum,“ sagði hann.

Er þá ótalið hversu margir farþegar hjá WOW air hafa orðið fyrir þessum seinkunum. Ljóst er þó að um þúsundir sé að ræða að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að kjaradeila flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd ISAVIA væri á strandstað og talið væri þýðingarlaust að reyna frekari sættir á næstunni. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, sagði flugumferðarstjóra krefjast launahækkana sem væru langt umfram hækkanir sem aðrir hefðu samið um og útilokað sé að SA geti boðið meira.

Þá kemur fram að flugumferðarstjórar vilji fá 37% upphafshækkun að mati SA. Heildarlaunin eru að meðaltali rúm milljón að mati SA.

Það er óvanalegt að ríkisstjórnin komi saman til fundar á miðvikudögum, en reglulegir ríkisstjórnarfundir eru haldnir á þriðjudögum og föstudögum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert