Fullyrðingarnar „tilhæfulausar með öllu“

Frá verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ.
Frá verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ. Ljósmynd/United Silicon

United Silicon telur óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við umfjöllun á vef Stundarinnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.

Frétt mbl.is: Sagðir losa eiturefni að næturlagi

Segir þar að myndband, sem þar er sýnt og tekið var upp um miðjan desember, sýni ekki losun eiturefna.

„Hið rétta er að myndbandið sýnir atvik þegar verið var að losa stíflu í reykhreinsivirki sem leiddi til að kísilryk barst út um opna lúgu. Vegna þess hversu mikið ryk barst út í andrúmsloftið var þessi vinna stöðvuð eftir skamma stund og öðrum aðferðum beitt sem ekki leiddu til ryklosunar,“ segir í yfirlýsingunni.

Það ryk sem sjáist í myndbandinu sé þá ekki eitrað eða hættulegt, heldur „verðmæt afurð og mikilvæg söluvara United Silicon sem safnað er í reykhreinsivirki, pakkað í sekki og selt meðal annars til sementsvinnslu erlendis.“

Myndband, sem tekið var upp í gær, sýni þá einnig kísilryk sem þyrlast hafi upp þegar verið var að losa sambærilega stíflu, án þess að nota blásara.

Unnið sé að úrbótum til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.

Aldrei farið upp fyrir viðmiðunarmörk

„Fullyrðingar Stundarinnar um að undanfarið hafi „hættuleg eiturefni“ verið losuð út í andrúmsloftið úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar í skjóli nætur eru tilhæfulausar með öllu og ekki ljóst hvaða tilgangi það þjónar að halda slíkum ósannindum fram.

Rétt er að benda á að United Silicon er með 3 mengunarmælistöðvar, staðsettar samkvæmt ábendingum Umhverfisstofnunar og eru mælingar þeirra allar birtar á vefsíðunni andvari.is.  Þessar mælingar sýna skýrt, að frá upphafi framleiðslu í nóvember, hefur mengun aldrei farið upp fyrir lögsett viðmiðunarmörk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert