Sá til kajakræðaranna frá landi

Tvær þyrlur voru notaðar við björgunaraðgerðir.
Tvær þyrlur voru notaðar við björgunaraðgerðir. mbl.is/Árni Sæberg

Símtalið sem barst Neyðarlínunni á laugardag um að tveir kajakræðarar væru hætt komnir í Þjórsá barst frá manneskju sem sá til þeirra frá landi. Voru þá tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út, björgunarsveitir á Suðurlandi auk sérhæfðs teymis björgunarsveitarmanna úr Reykjavík.

Báðir kajakræðararnir voru hífðir upp í þyrlur Landhelgisgæslunnar og fluttir til Reykjavíkur á sjúkrahús. Annar þeirra er látinn.

Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns sáust bátar mannanna á hvolfi austan við ós árinnar þegar flogið var yfir. Við leit sást síðan til mannanna vestan við ósinn.  „Það var mikið brim og ölduhæðin mikil,“ segir hann.

Rannsókn á tildrögum slyssins er ekki hafin að sögn Þorgríms Óla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert