Mennina bar út fyrir brimgarðinn

Þjórsárós á flóði. Í fjarska sést til Vestmannaeyja.
Þjórsárós á flóði. Í fjarska sést til Vestmannaeyja. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Mennirnir voru komnir langt út fyrir brimgarðinn við ósinn þegar þyrlan náði þeim,“ segir sjónarvottur að slysinu við Þjórsá sl. laugardagskvöld, þar sem íslenskur kajakræðari lést en félaga hans var bjargað.

Mennirnir tveir, Íslendingur og Frakki sem voru mágar, lögðu út á ána á kajökunum við bæ sem er nokkra kílómetra fyrir ofan ósinn. Ekki er ljóst hvort þeir réru niður að ósnum eða hvort þá rak þangað með straumþunga, en þegar þetta gerðist um kl. 21 um kvöldið var að falla að. Gætir áhrifa sjávarfalla alltaf talsvert langt upp í ána, svo munað getur einum til tveimur metrum.

„Þegar við sáum til mannanna þarna úti á ánni á aðfallinu sagði sig sjálft að aðstæður væru háskalegar. Þegar flæðir að er þetta eins og úthaf,“ segir maður sem er kunnugur á þessum slóðum. Fólk á svæðinu fékk svo upphringingu frá konu annars mannsins, Íslendingsins, sem bað um liðsinni. Þá voru mennirnir, sem voru í flotgöllum eða einhverju slíku, komnir út úr ósnum og báta þeirra hafði rekið upp að árbakkanum. Úti fyrir brimgarðinum velktust mennirnir en alltaf hélst slitrótt símasamband við þann franska.

Konan sem er frönsk talaði við bróðir sinn á frönsku, hún bar björgunarsveitarmönnum skilaboð á ensku, og svo fékk Neyðarlínan upplýsingarnar á íslensku og þannig var þeim skilað til Landhelgisgæslunnar sem sendi tvær þyrlur á vettvang, og voru mennirnir hífðir upp í sitt hvoru vélina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert