Flókið en betra að hafa sóttvarnahólf í skólum

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Vinstra megin á myndinni er …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Vinstra megin á myndinni er Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir það flókið að samræma sóttvarnahólf fyrir alla skóla líkt og gert verður til að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar. Verið er að fínpússa nýjar reglur þess efnis.

50 barna hólf verða á yngstu skólastigunum en 25 barna hólf á þeim eldri. Horft er til fjórða og fimmta bekkjar varðandi mörkin á milli yngri og eldri skólastiga í þessu samhengi. Tveggja metra regla verður á efstu skólastigunum en ákveðinn sveigjanleiki með grímunotkun.

Í þættinum Víglínunni á Stöð 2 sagði hún að það sé vel mögulegt að samræma sóttvarnahólfin og það hafi sýnt sig í vor þegar Ísland var eitt fárra ríkja sem lokuðu ekki skólunum sínum. „Það vorum við og Svíþjóð sem héldum í það grundvallarsjónarmið í þágu hvers við vildum forgangsraða,“ sagði hún og bætti við að það hafi gengið vel. Forsendur séu þó breyttar núna. Mikilvægt sé að tryggja að þau börn sem eru að upplifa þessa Covid-tíma hljóti viðeigandi menntun.

Betra að vera með hólfin

Spurð hvers vegna ekki var ákveðið að samræma fyrr sóttvarnahólf í skólunum sagði hún að skólasamfélagið vilji fara aftur í tímann áður en veiran kom upp. Áður hafi verið prófað að vera ekki með hólf en „við sjáum það núna að það er betra að vera með þessi hólf,“ sagði hún og nefndi að hólfin verði rýmri í þetta sinn.

Hún sagði að býsna mikil samstaða hefði verið um nýjar reglur en auðvitað séu mismunandi skoðanir. Sumir telji stjórnvöld ganga allt of hart fram og aðrir að þau eigi að herða reglur enn frekar og loka skólunum.

600 milljónir til fjölskyldna 

Spurð út í brottfall úr skólum sagði hún að strax í vor hafi verið ákveðið að fylgjast vel með öllu brotthvarfi. Vorið kom býsna vel út en núna eru vísbendingar um að nemendum finnist álagið of mikið í fjarnámi og eru sumir að minnka við sig, sagði hún.

Varðandi aðgerðir fyrir íþróttahreyfinguna og menningarlífið sagði hún stjórnvöld vera að taka á tekjufallinu sem listamenn hafa orðið fyrir. Einnig hafi verið aukið við sjóði sem tengjast menningu og listum. Einnig verður veitt um 600 milljónum króna til fjölskyldna sem eiga erfitt með að koma börnum sínum í íþróttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert