Hækka stýrivexti um 0,75 prósentur

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands hef­ur ákveðið að hækka vexti bank­ans um 0,75 pró­sent­ur. Meg­in­vext­ir bank­ans, vext­ir á sjö daga bundn­um inn­lán­um, verða því 2,75%.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá bank­an­um.

„Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í febrúarhefti Peningamála var hagvöxtur um 1 prósentu meiri á síðasta ári en spáð var í nóvember eða um 4,9%. Spáð er svipuðum hagvexti í ár,“ segir í tilkynningu frá Seðlabankanum.

Framleiðsluslakinn horfinn

Þá kemur fram að störfum hefur haldið áfram að fjölga og atvinnuleysi að minnka. Áætlað sé að framleiðsluslakinn sem myndaðist í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 sé horfinn. „Óvissa er hins vegar enn mikil.“

Rakið er í tilkynningu að verðbólguhorfur hafi versnað töluvert frá síðasta fundi nefndarinnar þegar stýrivextir voru hækkaðir um 0,5 prósentur. Mældist verðbólga 5,7% í janúar.

„Undirliggjandi verðbólga hefur einnig aukist og er talin vera ríflega 4%. Þá hafa verðbólguvæntingar á suma mælikvarða hækkað. Hækkun húsnæðisverðs vegur þungt en aðrir innlendir kostnaðarliðir hafa einnig hækkað. Við bætist hækkun alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs,“ segir í tilkynningu.

5 prósent verðbólga fram eftir þessu ári

Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur verðbólgu upp á 5,8% á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5% fram eftir þessu ári. Þá hjaðni verðbólga þegar hægir á verðhækkun húsnæðis og alþjóðlegar verðhækkanir fjara út en að hún verði ekki komin að markmiði fyrr en undir lok spátímans.

Hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu af kynningu ákvörðunar peningastefnunefndarinnar á mbl.is klukkan 9.30.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert