Hefur ekki áhyggjur af úrræðum í Grikklandi

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra telur lögreglu hafa athafst rétt eftir atvikum …
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra telur lögreglu hafa athafst rétt eftir atvikum þegar flytja þurfti fatlaðann hælisleitanda úr landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist ekki hafa áhyggjur á því að fatlaður maður sem var meðal þeirra 15 hælisleitanda sem voru flutt úr landi til Grikklands í gær fái ekki viðeigandi úrræði á vegum grískra stjórnvalda. 

Harka lögreglu í garð þeirra 15 hælisleitenda sem sendir voru úr landi hefur verið mikið gagnrýnd og ekki síst vegna meðferðar á Hussein Hussein, sem notast við hjólastól.

Sema Erla Ser­d­ar, stjórn­mála- og Evr­ópu­fræðing­ur og formaður Sol­ar­is sagði það vera „hrika­legt að horfa á lög­regl­una meðhöndla hann þarna og reyna að troða hon­um inn í bíl.“

Jón Gunnarsson telur að lögreglan hafi athafst rétt eftir atvikum.

„Já ég tel það. Þessi fatlaði maður var fluttur í hjólastól flestum af þeim leiðum sem þurfti að flytja hann í þessu ferli, í sérútbúnum hjólastólabíl,“ sagði Jón að loknum ríkisstjórnarfundi í samtali við mbl.is í dag.

„Í þessu tilfelli þar sem þurfti að bera hann inn í venjulegan fólksbíl, voru aðstæður sem sköpuðust sem gerðu það að verkum að lögreglan hafði ekki önnur úrræði á þeim eina legg. Það fylgdi honum síðan rafmagnshjólastóll til Grikklands og hann varð eftir þar fyrir hann til afnota.“

Fái viðeigandi úrræði í Grikklandi

Lögmaður Husseins telur engar líkur á því að hann muni fá þá læknisaðstoð sem hann þarf á að halda í Grikklandi. Jón telur að Hussein muni fá viðeigandi úrræði.

„Í þeim tilfellum sem við erum að flytja fólk til Grikklands eða annarra landa þá er það gert í samvinnu við viðtökuríkið. Fyrir liggja allar upplýsingar hjá viðtökuríkinu um það fólk sem er að koma og samþykki þess ríkis, í þessu tilviki Grikklands, á að taka á móti því.

Ég hef ekki áhyggjur af því að hann fái ekki viðeigandi úrræði á vegum grískra stjórnvalda þar sem þau eru að fullu upplýst um stöðu fólksins sem er að koma og hafa samþykkt að taka á móti,“ segir Jón.

Lögregla hafi gert það sem átti að gera

„Það var komin niðurstaða í málum þessa fólks á tveimur stjórnsýslustigum, bæði hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála og lögreglan er auðvitað að framfylgja því sem henni ber að framfylgja í brottvísun á fólki sem hefur fengið hér synjun.

Þetta krefst mikils undirbúnings og við sjáum það að upphaflega stóð til að flytja 28 manns af landinu. Í þessari ferð þá náðist að flytja 15, 13 fundust ekki. Að þessu leyti er tímasetningin erfið fyrir lögregluna að ná utan um þetta. Það er einfaldlega staðan í þessu máli.“

Spurður um það að lögregla hafi beðið starfsfólk Isavia um að beina kösturum og flóðljósum að fréttafólki svo ekki væri hægt að taka myndefni af flugvélinni segir Jón: „Ég þekki ekki til þess máls“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert