Málum hælisleitendanna hafi verið lokið

Ríkislögreglustjóri segir að hjólastóll hafi farið með fötluðum hælisleitanda á …
Ríkislögreglustjóri segir að hjólastóll hafi farið með fötluðum hælisleitanda á áfangastað er honum ásamt 14 öðrum einstaklingum var fylgt úr landi í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Mál allra hælisleitendanna sem var vísað úr landi í morgun var lokið hjá Útlendingastofnun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra.

Þar segir að klukkan 5 í morgun hafi stoðdeild ríkislögreglustjóra fylgt 15 einstaklingum frá Íslandi til Grikklands. Þau hafi öll verið umsækjendur um alþjóðlega vernd og höfðu fengið endanlega stöðu sinna mála hjá Útlendingastofnun og verið gert að yfirgefa landið.

Til stóð að fylgja 28 manns til Grikklands en 13 einstaklingar fundust ekki þegar þeirra var leitað, að því að kemur fram í tilkynningunni. 

Einnig er tekið fram að fötluðum einstaklingi, sem notast við hjólastól, hafi verið fylgt úr landi og að hjólastóll hafi farið með honum á áfangastað. Engin börn voru í fluginu í morgun.

Í tilkynningunni kemur fram að hælisleitendunum hafi öllum verið gefinn kostur á að yfirgefa landið sjálf og án lögreglufylgdar áður en til fylgdarinnar hafi komið. Skipulag vegna þessarar fylgdar hafi staðið yfir í rúman mánuð.

„Ef umsækjandi er metinn ósamvinnuþýður eða hættulegur hefur lögregla valdheimildir til að tryggja að lögreglufylgd nái fram að ganga og til að tryggja öryggi viðkomandi og almennings í framkvæmdinni. Valdheimildum er ekki beitt nema nauðsyn þyki til,“ segir í tilkynningunni. 

Tilkynning er svohljóðandi:

Klukkan 05:00 í morgun, fimmtudaginn 3.nóvember, fylgdi stoðdeild ríkislögreglustjóra 15 einstaklingum frá Íslandi til Grikklands. Þau voru öll umsækjendur um alþjóðlega vernd og höfðu fengið endanlega stöðu sinna mála hjá Útlendingastofnun og verið gert að yfirgefa landið. Til stóð að fylgja 28 manns til Grikklands en 13 einstaklingar fundust ekki þegar þeirra var leitað.


Öllum var gefinn kostur á að yfirgefa landið sjálf og án lögreglufylgdar áður en til fylgdarinnar kom. Notast var við leiguflugvél í fylgdinni en skipulag vegna þessarar fylgdar hefur staðið yfir í rúman mánuð. Þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa fengið endanlega niðurstöðu sinna mála hjá Útlendingastofnun er þeim gert ljóst um að þeim verði gert að yfirgefa landið og fara á verkbeiðnalista stoðdeildar. Einstaklingar eru ekki fjarlægðir af þeim verkbeiðnalista nema af beiðni Útlendingastofnunar.

Eftir að Útlendingastofnun hefur tilkynnt fólki um niðurstöðu sinna mála hefst undirbúningur stoðdeildar en hann snýr í meginatriðum að eftirfarandi þáttum:

  • Meta stöðu einstaklings varðandi tilhögun á lögreglufylgd, m.a. í samræmi við ákvörðun, heilbrigðisaðstæður og öryggissjónarmið
  • Kanna og fastsetja ferðatilhögun og dagsetningu – tryggja samþykki flugrekstraraðila
  • Ráðstafanir varðandi mönnun fylgdar
  • Upplýsa samstarfsaðila um fyrirhugaða fylgd og tryggja samþykki
  • Upplýsa umsækjanda um fyrirhugaða fylgd
  • Tryggja návist viðkomandi þegar að fylgd kemur

Ef umsækjandi er metinn ósamvinnuþýður eða hættulegur hefur lögregla valdheimildir til að tryggja að lögreglufylgd nái fram að ganga og til að tryggja öryggi viðkomandi og almennings í framkvæmdinni. Valdheimildum er ekki beitt nema nauðsyn þyki til. 

Rétt er að taka fram að fötluðum einstaklingi, sem þarf að notast við hjólastól, var fylgt úr landi og fór hjólastóll með honum á áfangastað. Þá voru engin börn í fluginu í morgun og sem stendur eru engin börn á verkbeiðnalista stoðdeildar á leið til Grikklands.

Ekki verða veittar nánari upplýsingar um fylgdina í gær að svo stöddu.

mbl.is

Bloggað um fréttina