Hækkunin nær til 17 þúsund heimila

Sigurður Ingi segir að um sé að ræða húsnæðisstuðning upp …
Sigurður Ingi segir að um sé að ræða húsnæðisstuðning upp á 1,7 milljarð króna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hækkun húsnæðisbóta til leigjenda í upphafi næsta árs og hækkun tekjuskerðingarmarka á sama tíma ná til 17 þúsund heimila, að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra. 

Hækkanirnar eru hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og voru kynntar á blaðamannafundi í dag. Um er að ræða hækkun húsnæðisbóta upp á 13,8 prósent en tekjuskerðingarmörk hækka um 7,4 prósent.

Sigurður segir þetta hækkun upp 1,1 milljarð króna sem komi ofan á tíu prósent hækkun sem kom til framkvæmda í vor.

„Þannig þetta er umtalsverð hækkun á einu ári og í samræmi við það sem við sögðum, að við værum að fylgjast með þróuninni á leigumarkaði og myndum stíga inn í ef þörf krefði. Það er mat þessa starfshóps sem var að skila af sér um stuðning til einstaklinga, að það væri það.”

Húsnæðisstuðningur upp á 1,7 milljarð króna

Sams konar stuðningur kemur til þeirra sem fá vaxtabætur en eignamörk hækka úr átta milljónum í tólf og stækkar því töluvert sá hópur sem á rétt á vaxtabótum.

„Við erum að hækka þar skerðingarmörkin um 50 prósent sem gerir það að verkum að sá hópur stækkar líka og viðbótarhækkanir fara til þeirra sem minnst hafa,“ segir Sigurður. 

Allt í allt séu þetta um 1,7 milljarðar króna, þegar allur húsnæðisstuðningur sé tekinn saman.

Leita leiða til að styrkja réttarstöðu leigjenda

Þá verður einnig lögð áhersla á að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Verkalýðsforystan og samtök atvinnurekenda fá aðkomu að því samtali.

„Við erum með hóp um húsaleigu og lögin og erum að lýsa því yfir að við viljum gjarnan fá aðila vinnumarkaðarins inn í það samtal,“ segir Sigurður.

„Þetta snýst um að ræða um það hvernig við getum styrkt réttarstöðu leigjenda. Hvaða leiðir eru til þess bestar. Og kannski koma ofan í það að við erum að klára loksins í þessari viku í þinginu nýtt frumvarp til húsaleigulaga um skráningarskyldu og skylda hluti.“

Eitt af því sem þurfi að horfa til sé að leigufélög hækki ekki leigu óeðlilega mikið.

„Hvort sem það heitir umræða um leiguþak, bremsur eða aðrar leiðir. Þetta snýst fyrst og fremst um að styrkja réttarstöðu leigjenda,“ segir Sigurður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert