Vilja brjóta upp „fákeppnisstöðu“ í Sundahöfn

Leiguskip Eimskips, EF AVA hemur inn til hafnar við Kleppsbakka …
Leiguskip Eimskips, EF AVA hemur inn til hafnar við Kleppsbakka í Sundahöfn mbl.is/​Hari

Vinna er hafin á vegum Faxaflóahafna við að breyta rekstrarlíkani Sundahafnar svo að fleiri skipafélög hafi aðgang að hafnaraðstöðu og þjónustu. Hagsmunasamtök vilja brjóta upp „fákeppnisstöðu“ Eimskips og Samskipa í Sundahöfn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda (FA), Neytendasamtökunum (NS) og VR.

Funduðu þessi samtök með borgar- og hafnaryfirvöldum í Reykjavík í dag þar sem rætt var hvernig væri hægt að auka samkeppni á milli skipafélaga í Sundahöfn, vegna niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins (SKE) á síðasta ári um að Samskip og Eimskip hefðu stundað samráð.

Samskip hafnar enn ásökunum um samráð.

„Að mati samtakanna þrennra kom fram á fundinum skýr pólitískur vilji borgaryfirvalda til að fylgja eftir tilmælum SKE um að tryggt verði að nýir og minni aðilar geti fengið aðstöðu og viðeigandi þjónustu, sem geri þeim kleift að keppa, án mismununar, við stærri aðila í sjóflutningum. Vinna er hafin á vegum Faxaflóahafna við að breyta rekstrarlíkani Sundahafnar, þannig að fleiri skipafélög hafi aðgang að hafnaraðstöðu og þjónustu,“ kemur fram í tilkynningunni.

Vinna að mati á tjóni

Segja samtökin að þau telji það stórt hagsmunamál fyrirtækja, neytenda og launþega að „fákeppnisstaða Eimskips og Samskipa í Sundahöfn verði brotin upp“ og þannig skapað aðstæður svo að önnur skipafélög fái sanngjarnari aðgang að þjónustu og aðstöðu í Sundahöfn.

Fundinn sátu meðal annars Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir stjórnarformaður Faxaflóahafna og Gunnar Tryggvason hafnarstjóri. Fram kom, samkvæmt tilkynningunni, að vinna væri hafin á vegum hafnanna við að efla samkeppni og bæta aðgang keppinauta Samskipa og Eimskips að aðstöðu og þjónustu.

„Samtökin þrenn telja fundinn hafa verið jákvæðan og munu áfram vinna sameiginlega að því að þrýsta á stjórnvöld að bregðast við tilmælum Samkeppniseftirlitsins og tryggja virka samkeppni í vöruflutningum. Á vegum FA, NS og VR er nú unnið að mati á því tjóni, sem samráð stóru skipafélaganna olli fyrirtækjum og neytendum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert