Þingsæti möguleg óháð 5% reglunni

mbl.is/Styrmir Kári

„Menn geta náð kjördæmakjöri algerlega óháð þessum fimm prósentum,“ segir Þorkell Helgason, stærðfræðingur og fyrrverandi prófessor, í samtali við mbl.is spurður út í þá ríkjandi skoðun að framboð til Alþingis þurfi að ná 5% fylgi á landsvísu til þess að ná fulltrúum inn á þing.

Þorkell segir að sá þröskuldur snúist eingöngu um möguleika framboða á því að því að fá jöfnunarþingsæti en hafi hins vegar ekki áhrif á það ef framboð fær nægt fylgi í viðkomandi kjördæmi til þess að ná fulltrúa inn á þing. Þannig megi taka sem dæmi að í Norðvesturkjördæmi þurfi 1/8 atkvæða til þess að vera öruggur með að fá mann kjördæmakjörinn eða um 12,5% og í Suðvesturkjördæmi sé hlutfallið 1/12 eða um 8,3% vegna mismunandi fjölda þingsæta í hvoru kjördæmi.

Hugsanlega væri þó hægt að ná kjördæmakjörnum manni með aðeins minna fylgi eftir því hvernig atkvæðin dreifðust. Það er að segja hve mikið fylgi félli niður dautt eins og það er stundum orðað. Þó ekki aðeins vegna minni framboða sem ekki næðu fulltrúum inn á þing heldur einnig vegna stærri framboða sem vantaði tiltölulega lítið fylgi upp á að ná næsta manni inn. Það fylgi falli einnig dautt niður.

„Fimm prósenta talan er í rauninni óháð því hvort þú nærð kjördæmiskjörnum manni eða ekki. Þetta breyttist árið 2000. Áður þurfti eins konar móðurskip, það er að ná einhvers staðar kjördæmakjörnum manni til þess að eiga möguleika á jöfnunarþingsætum. Sú regla er hins vegar ekki lengur í gildi. Fimm prósenta reglan segir einfaldlega að ef framboð kemst yfir 5% á landsvísu þá á það rétt á þátttöku í slagnum um jöfnunarsætin og þá skiptir engu máli hvort það hafi fengið kjördæmiskjörinn mann eða ekki,“ segir hann.

Það sé þó ekki þar með gefið að framboð sem nái 5% fylgi á landsvísu fái jöfnunarþingsæti, þau eigi aðeins möguleika á þeim. Kosningakerfið virki hins vegar þannig að minni framboð séu líklegri til þess að fá úthlutað jöfnunarsætum en þau sem stærri eru.

Þorkell Helgason, fyrrverandi prófessor.
Þorkell Helgason, fyrrverandi prófessor.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert