Einboðið að Sigmundur fái umboðið

Árni Páll Árnason tjáði Ólafi Ragnari Grímssyni þá skoðun sína á fundi með honum á Bessastöðum að hið rétta í stöðunni væri að veita Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni umboð til stjórnmyndunar, í ljósi kosningasigurs hans. Aðspurður sagðist Árni Páll ekki ætla að segja af sér sem formaður Samfylkingarinnar.

„Við fórum yfir stöðuna og ræddum mögulegar stjórnarmyndanir,“ sagði Árni Páll um fund hans með forsetanum, sem stóð í rétt tæpa klukkustund.

„Ég sagði það sem ég hef áður sagt að mér finnst einboðið að formaður  Framsóknarflokksins fengi stjórnmyndunarumboðið í ljósi þingkosninganna, hann er auðvitað stærsti sigurvegari  kosninganna.“

Árni Páll sagðist ekki hafa heyrt í Sigmundi Davíð né Bjarna Benediktssyni í dag.

Þannig að [Samfylkingin] ætlar ekki að hafa nein afskipti af hugsanlegra stjórnarmyndun?

„Við auðvitað gegnum okkar lýðræðislegu skyldum. Við tölum við aðra flokka ef eftir því er leitað en ég geri ekki ráð fyrir því að mér verði falið stjórnarmyndunarumboðið, það er líklegt að aðrir fái það. Ég held það sé auðvitað þannig miðað við að menn hafa talað um tveggja flokka stjórn þá þurfum við auðvitað fyrst að heyra það hvort menn hafi á því áhuga að leiða slíkt til lykta. En eins og ég segi, ég benti á formann Framsóknarflokksins og að hann væri hinn augljósi kandídat til að fá umboðið.“

Ætlar þú að segja af þér sem formaður Samfylkingarinnar?

„Nei, ég er nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar með mjög miklum meirihluta atkvæða.“

Árni Páll Árnason ræddi stuttlega við fjölmiðla að loknum fundi …
Árni Páll Árnason ræddi stuttlega við fjölmiðla að loknum fundi með forseta Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, á fundi með Ólafi Ragnari …
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, á fundi með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta á Bessastöðum í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, mætir á Bessastaði.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, mætir á Bessastaði. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert