Átök innan Miðflokks vegna uppstillinga

Þingmenn Miðflokksins. Frá vinstri sitja við borðið Karl Gauti Hjaltason, …
Þingmenn Miðflokksins. Frá vinstri sitja við borðið Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Ólafur Ísleifsson. mbl.is/​Hari

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, skipar fyrsta sæti flokksins í tillögum uppstillingarnefndar í Suðurkjördæmi samkvæmt heimildum mbl.is. 

Fyrir hafði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins og áður þingmaður Flokks Fólksins, sóst eftir að leiða listann. Hann er ekki á listanum sem uppstillingarnefnd leggur til. 

Birgir Þórarinsson.
Birgir Þórarinsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Miðflokkurinn mælist nú með fylgi um og yfir fimm prósent en fékk tæp ellefu prósent atkvæða í síðustu alþingiskosningum.

Þá hefur formaður uppstillingarnefndar staðfest að kona muni skipa annað sæti listans sem lagður er til af nefndinni. Mun það vera Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Mjólkursamsölunni. 

Búast allt eins við átökum

Listinn verður lagður fyrir á félagsfundi á miðvikudaginn, sem haldinn verður á skrifstofu Miðflokksins í Hamraborg í Kópavogi en einnig verður hægt taka þátt í fjarfundi.

Karl Gauti Hjaltason.
Karl Gauti Hjaltason. mbl.is/​Hari

Félagsmenn Miðflokksins í Suðurkjördæmi segja í samtali við mbl.is allt eins búast við því að gerð verði tilraun til þess að „smala“ á fundinn og fella tillöguna líkt og gerðist í vikunni í Reykjavíkurkjördæmi suður. 

Afar sjaldgæft er að tillögur uppstillinganefnda séu felldar þar sem uppstillingarnefndir eru alla jafnan skipaðar fulltrúum mismundi hópa innan flokka. Viljinn.is greindi fyrst frá því á fimmtudagskvöldi að félagsfundur Miðflokksmanna í Reykjavík suður hafi fellt tillögu uppstillagarnefndar.

Karl Gauti, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi í …
Karl Gauti, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi í þingflokksherbergi Miðflokksins. Haraldur Jónasson/Hari

Ákall eftir fjölbreytni 

Samkvæmt tillögunni átti Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins að leiða listann. Þorsteinn Sæmundsson, sitjandi oddviti og þingmaður flokksins, var ekki á listanum sem lagður var til. Hafði Þorsteinn þó sóst eftir að leiða listann. Fjóla Hrund er 33 ára stjórnmálafræðingur sem starfað hefur fyrir flokkinn í rúm tvö ár.

Segja flokksmenn sem voru á staðnum að andstaðan hafi komið verulega á óvart og hafi fólk verið á fundinum sem ekki hafa áður sést á flokksfundum hjá  Miðflokknum.  

Heimildir mbl.is herma að skýrt ákall hafi verið frá grasrót flokksins um meiri fjölbreytni á framboðslistum Miðflokksins. Engin kona hefur leitt lista Miðflokksins til þessa og hefur níu manna þingflokkurinn aðeins eina konu að geyma. 

Þorsteinn Sæmundsson
Þorsteinn Sæmundsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá sagði Hólmgeir Karlsson, stofnfélagi í Miðflokknum, sig frá öllum trúnaðarstörum í flokknum nýlega eftir að hafa starfað í uppstillingarnefnd. Gaf hann meðal annars þá skýringu að horft hafi verið fram­hjá reynslu­mikl­um kon­um í flokkn­um.

Sagði hann það þá ekki tengjast þeirri ákvörðun að ákveðið hafi verið að leggja niður embætti varaformanns Miðflokksins þegar Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi var ein í kjöri til embættisins. 

Hvað gerist í Suðvesturkjördæmi?

Niðurstaða uppstillingarnefndar Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi liggur ekki enn fyrir. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, hefur lýst því yfir að hann sækist ekki eftir áframhaldandi setu á Alþingi og mun ekki leiða lista. 

Una María Óskarsdóttir, varaþingmaður sem síðast skipaði annað sætið á eftir Gunnari Braga, hefur sóst eftir að leiða listann.  Það hefur Guðmundur Helgi Víglundsson, vélaverkfræðingur sömuleiðis gert.

Því hefur verið velt upp hvort að Karl Gauti láti reyna á að fá að leiða lista í Suðvesturkjördæmi, takist honum ekki að fella Birgi. Karl Gauti er búsettur í Kópavogi.

Þá stendur til að kynna niðurstöður uppstillingar nefndar flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður á mánudaginn. Miðflokkurinn fékk ekki þingmann kjörinn í kjördæminu í síðustu kosningum en Ólafur Ísleifsson situr á þingi fyrir Miðflokkinn í kjördæminu eftir að hann gekk til liðs við hann frá Flokki Fólksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert