Segir sig frá trúnaðarstörfum fyrir Miðflokkinn

Hólmgeir hefur sagt sig frá trúnaðarstörfum fyrir Miðflokkinn.
Hólmgeir hefur sagt sig frá trúnaðarstörfum fyrir Miðflokkinn. mbl.is

Hólmgeir Karlsson, stofnfélagi í Miðflokknum og framkvæmdastjóri Bústólpa á Akureyri, hefur sagt sig frá trúnaðarstörfum fyrir flokkinn þar sem margt í flokksstarfinu samrýmist ekki lengur hans gildum og viðhorfum, auk þess sem horft hafi verið framhjá reynslumiklum konum í flokknum. Viljinn greinir frá.

Miðflokkurinn stillir upp á lista og er sú vinna enn í gangi.

Ekki ánægður með vinnubrögðin

„Það voru ákveðnir hlutir í vinnubrögðum sem samrýmast ekki mínum gildum og viðhorfum og það sem vó þungt er að það leit út fyrir að horft yrði framhjá sterkum og reynslumiklum konum,“ segir Hólmgeir í samtali við mbl.is. Hann kýs að tjá sig ekki frekar um málið.

Spurður hvort hann sé að vísa til ákvörðunar flokksins um að fella niður varaformannsembættið eftir að Vigdís Hauksdóttir var ein í framboði, segir hann svo ekki vera.

Hólmgeir hefur tekið ríkan þátt í starfi flokksins og gegndi embætti formanns kjördæmafélags Miðflokksins í Norðausturkjördæmi og formanns Málefnanefndar.

„Fyrir mér eru samvinna, samheldni, heilindi og samhugur gildi sem eiga að ráða för. Vettvangur þar sem fólk nýtur sannmælis og virðingar og á að geta unnið sig til metorða með verkum sínum og dugnaði,“ skrifar Hólmgeir í færslu sem hann birti á umræðuvettvangi Miðflokksins í gærkvöldi.

„Í þannig umhverfi skapast liðsheild sem líkleg er til að vinna stóra sigra og langtímahugsun ræður för, en ekki skammtímahagsmunir einstakra aðila. Í slíku umhverfi þroskast fólk og verður hæfara, á möguleika að ná lengra, færast upp framboðslista eða vera valið til trúnaðarstarfa. Í þannig umhverfi getur hver og einn fundið krafta sína og unnið að gildum flokksins yfir lengra tímabil. Þessu er því miður ekki fyrir að fara með þeim hætti sem mér finnst eðlilegt og uppbyggilegt,“ skrifar hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka