Tilraunalending SpaceX misheppnaðist

Falcon 9
Falcon 9 AFP

Bandaríska geimvísindafyrirtækið SpaceX hefur tilkynnt að tilraunalending Falcon 9 á fljótandi lendingarpramma hafi mistekist.

Í frétt AFP-fréttastofunnar segir að lendingin hafi verið tilraun fyrirtækisins til að umturna geimferðaiðnaðnum og færa hann nær flugvélum hvað varðar endurnýtingu á vélum.

Eldflaugin komst að lendingarpallinum en lendingin var hörð,“ skrifaði Elon Munsk, framkvæmdastjóri SpaceX á Twitter.

„Nálægt en engir vindlar í þetta sinn. Lítur þó vel út upp á framtíðina að gera.“

Elon Musk, frumkvöðullinn á bak við PayPal og Tesla Motors, hefur gefið það út að hann vilji nýta geimflaugar með sama hætti og flugfélög gera með flugvélar sínar þegar þau fljúga sömu flugvélinni aftur og aftur. SpaceX vonast til þess að tilraunir fyrirtækisins verði til þess að geimflaugaiðnaðurinn sigli inn í nýja tíma en milljónir dollara fara í súginn í hvert skipti sem geimflaugum er skotið upp í loft og varahlutir látnir hrapa í sjóinn eftir skotið.

Birgðahylkinu skotið á sporbaug án áfalla

Markmið eldflaugaskotsins var að koma áföstu birgðahylki til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og lenda fyrsta hlutanum á lendingarprammanum um 322 km norður af Flórída.

Lendingarpramminn, eins konar „geimflaugahöfn“, er 90 sinnum 30 metrar að stærð með vængi sem auka breiddina í 50 metra.

Musk segir að þar sem geimflauginni hafi verið skotið upp í myrkri hafi teymið ekki náð góðri vídeóupptöku af árekstrinum í lendingunni.

„Skipið sjálft er í góðu lagi. Það þarf að skipta út einhverju af stuðningsbúnaðinum,“ skrifaði hann á Twitter og bætti við: „Við náðum ekki góðu lendingar/árekstrarmyndbandi. Dimmt og þokukennt.“

SpaceX hafði áður náð að lenda Falcon 9 tvisvar sinnum á hafi úti þar sem eldflaugin hægði á sér og sveimaði yfir pallinum áður en hún lenti samkvæmt frétt AFP.

Birgðahylkinu Dragon var skotið á sporbaug og gekk það án áfalla eftir að seinka þurfti eldflaugaskotinu tvisvar undanfarnar vikur. Var Falcon 9 skotið upp frá Cape Canaveral í Flórída, og bar það birgðahylkið í átt að Alþjóðlegu geimstöðinni með nauðsynjar fyrir sex geimfara um borð.

Samkvæmt upplýsingum frá NASA ætti Dragon-flaugin að ná til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á mánudaginn en um borð eru um 2.300 kg af nauðsynjavörum. Talsmaður NASA, George Diller, segir að hingað til hafi 100% náðst í leiðöngrunum SpaceX eftir að Dragon hafði verið losað frá Falcon 9.

Geimskotið í morgun var það fimmta hjá SpaceX þar sem birgðahylki er skotið í átt til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og er partur af samningi SpaceX og NASA sem hljóðar upp á 1,6 milljarða bandaríkjadala en ferðirnar verða í heild tólf. Árangur SpaceX er mikilvægur í ljósi þess að keppinautur þeirra, Orbital Sciences, sem er með 1,9 milljarða dollara samning við NASA, varð fyrir harmleik í október þegar eldflaug fyrirtækisins sprakk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert