Fréttaskýring: Hægrimönnum spáð sigri í kosningum í ESB

Líklegt þykir að þingflokkur miðju- og hægrimanna, Evrópski þjóðarflokkurinn (EPP), haldi velli sem stærsta fylkingin á Evrópuþinginu í kosningum 4.-7. júní þótt ætla mætti að efnahagskreppan og afleiðingar hennar yrðu vatn á myllu vinstriflokka.

Evrópskir jafnaðarmenn (Party of European Socialists, PES), hafa ekki verið stærsta fylkingin á Evrópuþinginu frá árinu 1994 og skoðanakannanir benda til þess að þeir verði áfram næststærstir eftir kosningarnar.

Líklegt þykir að róttækir vinstrimenn auki fylgi sitt í nokkrum ESB-löndum, m.a. Búlgaríu, Frakklandi, Þýskalandi og Ítalíu. Á móti kemur að sömu sögu er að segja um hægriflokka sem eru andvígir frekari Evrópusamruna og hafa sótt í sig veðrið.

„Fólk vill draga bankamennina til ábyrgðar fyrir kreppuna, ekki hægrimennina,“ segir Dominik Hierlemann, stjórnmálasérfræðingur við Bertelsmann-stofnunina í Þýskalandi. „Á krepputímum eru kjósendur tregir til að kasta sér út í nýjar tilraunir.“

Þar að auki hafa hægrimennirnir brugðist við kreppunni með aðgerðum, sem vinstriflokkar hafa verið þekktari fyrir, t.a.m. með þjóðnýtingu banka, auknum ríkisútgjöldum til að örva efnahaginn og hertum reglum um markaðina.

Lítilli kjörsókn spáð

Búist er við að aðeins um þriðjungur þeirra, sem eru á kjörskrá, kjósi í kosningunum í júní þegar 736 fulltrúar verða kjörnir í Evrópuþingið.

Skoðanakönnun, sem gerð var í byrjun ársins, benti til þess að kjörsóknin yrði aðeins 34% og minni en nokkru sinni fyrr í kosningum til Evrópuþingsins. Kjörsóknin hefur minnkað jafnt og þétt frá árinu 1979 og var 45% árið 2004. Sérfræðingar nefna margar skýringar, t.a.m. að fólk hafi litla þekkingu á valdi eða hlutverki Evrópuþingsins.

„Barátta okkar snýst fyrst og fremst um það að afstýra því að fólkið sitji heima,“ sagði franski landbúnaðarráðherrann og hægrimaðurinn Michel Barnier.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert