Tíu vitnisburðir vegna Epstein

Íbúð Epstein var í þessari byggingu í París.
Íbúð Epstein var í þessari byggingu í París. AFP

Frönsk góðgerðarsamtök hafa fengið í hendurnar vitnisburði frá tíu manns í tengslum við rannsóknina á máli kynferðisbrotamannsins Jeffrey Epstein.

Samtökin Innocence en Danger berjast fyrir réttindum barna þegar kemur að ofbeldi og kynferðislegri misnotkun og ætla þau að láta stjórnvöldum í té vitnisburðina.

Bandaríski milljarðamæringurinn Epstein framdi sjálfsvíg í fangaklefa sínum fyrr í þessu mánuði. Hann hafði verið ákærður fyrir mansal og tengdist hann misnotkun á stúlkum undir lögaldri bæði á heimili sínu í Palm Beach og á einkaeyju sinni í Karíbahafi.

Óskað hefur verið eftir því að mál hans verið rannsakað í Frakklandi enda er vitað að hann tók á móti gestum í íbúð sinni við Avenue Foch, skammt frá breiðgötunni Champs-Elysees.

„Við fengum tíu vitnisburði í hendurnar,” sagði yfirmaður Inoocence en Danger, Homayra Sellier, við AFP, og bætti við að þeir hefðu komið frá fólki sem sagðist annað hvort hafa orðið fyrir misnotkun eða orðið vitni að slíku.

Þeir sem sögðust hafa orðið fyrir misnotkun voru ekki allir franskir en meintu brotin „gerðust á frönsku svæði og er málið líklega í höndum Frakka,” sagði hún.

Jeffrey Epstein framdi sjálfsvíg í fangaklefa sínu.
Jeffrey Epstein framdi sjálfsvíg í fangaklefa sínu. AFP

Innocence en Danger birtu 12. ágúst opið bréf til saksóknarans Remy Heitz um að hefja rannsókn á máli Epstein, þar sem fram kom að mörg af fórnarlömbum hans væru franskir ríkisborgarar. Viðbrögðin sem samtökin fengu voru á þá leið að frumathugun væri að hefjast á málinu sem myndi leiða í ljós hvort formleg rannsókn hæfist.

Einn nánasti vinur Epstein var Frakkinn Jean-Luc Brunel, sem starfar við að finna ungar og efnilegar fyrirsætur. Hann var sakaður um nauðgun og fyrir að hafa útvegað Epstein ungar stúlkur. Hann hefur neitað sök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert