Vilja að Frakkar rannsaki Epstein

Ráðherrarnir frönsku segja í yfirlýsingu sinni að rannsóknin í Bandaríkjunum …
Ráðherrarnir frönsku segja í yfirlýsingu sinni að rannsóknin í Bandaríkjunum hafi „sýnt fram á tengsl við Frakkland,“ en útskýra þau meintu tengsl ekki frekar. AFP

Tveir ráðherrar í ríkisstjórn Frakklands hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem kallað er eftir því að frönsk yfirvöld rannsaki mál bandaríska kynferðisafbrotamannsins Jeffrey Epstein. Ráðherrarnir segja að rannsókn á hendur Epstein vestanhafs hafi leitt í ljós tengsl auðkýfingsins við Frakkland, sem beri að kanna nánar.

Epstein, sem fannst látinn í fangaklefa sínum í New York á laugardag, átti íbúð í París og hafði dvalið í borginni skömmu áður en hann var handtekinn í New York.

Marlene Schiappa ráðherra jafnréttismála og Adrien Taquet barnavelferðarráðherra í ríkisstjórn Frakklands vilja að frönsk stjórnvöld taki mál Epstein til rannsóknar og segja í yfirlýsingu sinni að rannsóknin í Bandaríkjunum hafi „sýnt fram á tengsl við Frakkland,“ en útskýra þau meintu tengsl ekki frekar.

Samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla átti Epstein litla svarta bók, þar sem hann skráði nöfn yfir 100 stúlkna eða kvenna frá þeim svæðum þar sem hann átti heimili, hvort sem það var á Palm Beach í Flórída, New York eða í París. Saksóknarar í Bandaríkjunum telja að hann hafi haldið úti eins konar neti ungra stúlkna, sem margar voru á barnsaldri.

Upplýsingar opinberaðar degi fyrir andlát hans

Á föstudag birtust nýjar upplýsingar um athæfi Epstein, er alríkisdómstóll í Bandaríkjunum svipti hulunni af dómsgögnum í máli sem kona að nafni Virginia Guiffre höfðaði árið 2015 gegn Ghislaine Maxwell, vinkonu Epstein til áratuga.

Guiffre og Maxwell sömdu um málið utan dómstóla árið 2017 og gögnin voru ekki birt fyrr en á föstudag, eftir að Miami Herald og fleiri fjölmiðlar fóru fram á það við dómstólinn að gögnin yrðu opinberuð.

Fram kom í vitnisburði Guiffre að hún hefði verið ráðin í vinnu hjá Epstein sumarið 2000, er hún var 16 ára gömul, og að Maxwell hefði ráðið hana. Hún lýsti því sem svo að hún hefði verið ráðin sem nuddkona, en fljótlega hefði hún verið orðin „kynlífsþræll“ Epstein. New York Times fjallaði ítarlega um þessi gögn á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert