Bretaprinsinn var „vikum saman“ hjá Epstein

Bretaprinsinn er sagður hafa eytt vikum saman á heimili Epstein …
Bretaprinsinn er sagður hafa eytt vikum saman á heimili Epstein og fengið nudd á hverjum degi. Samsett mynd/AFP

Andrés Bretaprins eyddi vikum saman á heimil Jeffrey Epstein í Flórída. Þetta kemur fram í þriðju birtingu dómsskjala úr réttarhöldum yfir kærustu og samsæriskonu Epstein, Ghislaine Maxwell.

Samkvæmt vitnisburði Juan Alessi, sem annaðist eign Epstein í Flórída-ríki, eyddi prinsinn vikum saman á heimilinu og fékk stúlkur til sín daglega til að nudda sig.

Taldi aðeins um nudd að ræða

Breska ríkisútvarpið greindi frá framburði Alessi sem sagði Andrés og þáverandi eiginkonu hans, hertogaynjuna Söruh Ferguson, hafa verið góðvini Epstein og Maxwell. Epstein hafi eytt vikum saman á heimilinu, eitt sinn í för með Fergusson. Hertogaynjan, sem oftast er þekkt undir gælunafninu Fergie, er þó ekki sökuð um misgjörðir í framburði Alessi. 

Bretaprinsinn hefur alfarið neitað ásökununum starfsmannsins, sem kvaðst ekki muna hvort prinsinn hafi verið nuddaður oft á dag.

„Ég man ekki hvort hann hafi fengið fleiri en eitt [á dag] en ég held að það hafi aðeins verið um nudd að ræða í hans tilfelli,“ er haft eftir Alessi í dómsskjölunum. 

Greindi Alessi einnig frá því í vitnisburði sínum að hafa hitt fyrrverandi Bandaríkjaforsetana Bill Clinton og Donald Trump á heimilinu, en kvaðst ekki hafa séð þá aðhafast neitt óviðeigandi þar. 

Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell.
Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell. AFP

Orgía með stúlkum undir lögaldri

Epstein fyrirfór sér í fangaklefa sínum er hann beið réttarhalda árið 2019, en Maxwell sætti réttarhöld og var dæmd í 20 ára fangelsi fyrir samverknaðinn við Epstein árið 2022, en hjúin stunduðu kynlífsþrælkun á ungum stúlkum til velþekktra vina sinna og kollega.

Nöfn úr réttarhöldum yfir Maxwell vegna kæru á hendur henni af hálfu fyrrum aðstoðarkonu Epstein og fórnalambs, Virginiu Giuffre, voru fjarlægð á sínum tíma en dómari fyrirskipaði að nöfnin skildu birt innan 14 daga í desember 2023. Frestur til að andmæla nafnbirtingu rann út á fimmtudaginn síðastliðinn og hafa fleiri en 100 nöfn verið birt síðan. 

Í skjölunum er haft eftir nafnlausum ákæranda að hún hafi verið þvinguð til að stunda kynmök við prinsinn þegar hún var aðeins 17 ára gömul, í þrjú mismunandi skipti. Í íbúð Maxwell í London, í New York og á Bandarísku Jómfrúareyjunum, þar sem um var að ræða orgíu með prinsinum og öðrum stúlkum undir lögaldri. 

Fékk þrjá 12 ára stúlkur í „afmælisgjöf“

Sú ásökun er ekki ný af nálinni og hefur prinsinn harðneitað henni frá upphafi, þar á meðal í eftirminnilegu einkaviðtali við breska ríkisútvarpið þar sem prinsinn kvaðst ekki muna eftir að hafa hitt Giuffre eða að hafa átt í kynferðislegum samskiptum við ólögráða stúlkur.

Árið 2022 greiddi hann Giuffre óuppgefið fjármagn með því skilyrði að hún hyrfi frá ákæru sinni gegn honum um kynferðisbrot. Var þó skýrt tekið fram í samkomulagi þeirra að prinsinn játaði að engu leyti sök með greiðslunni. 

Giuffre hefur verið leiðandi í málunum gegn Maxwell og Epstein, en hún kveðst hafa verið tæld í kynlífsþrælkun af skötuhjúunum aðeins 15 ára gömul. Hefur Giuffre sett fram fjölda átakanlegra fullyrðinga, þar á meðal að Epstein hafi fengið þrjár 12 ára gamlar stúlkur sendar til sín í einkaþotu í afmælisgjöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert