Bifreið með 15 milljón býflugum valt

Flutningabifreiðin flutti um 15 milljónir býflugna áður en hún valt.
Flutningabifreiðin flutti um 15 milljónir býflugna áður en hún valt. AFP

Vöruflutningabifreið sem flutti um 15 milljón hunangsbýflugur til að fræva bláberjaakra valt á þjóðvegi 95 í Bandaríkjunum í gær.

Ökumaðurinn var fluttur á sjúkrahús í varúðarskyni og á meðan unnu viðbragðsaðilar að því að tryggja öryggi býflugnanna sem voru í býflugnabúum.

Býflugurnar voru að mestu innilokaðar og var markmiðið að bjarga þeim, sagði Shannon Moss talsmaður ríkislögreglunnar.

Vissu ekki að farmurinn væri býflugur

Í fyrstu vissu viðbragðsaðilar ekki að farmurinn væri býflugur fyrr en slökkviliðsmenn fóru að athuga hvort vökvi læki, sagði Travis Leary slökkviliðsstjóri.

Sagði hann viðbragðsaðilana hafa uppgötvað það á erfiða mátann.

„Strákarnir voru stungnir reglulega. Allir voru stungnir að minnsta kosti nokkrum sinnum,“ sagði Leary sem sjálfur varð fyrir nokkrum býflugnastungum.

Bifreiðin var á leiðinni til Washington-sýslu sem er talin vera miðstöð villta bláberjaiðnaðarins.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert