Að minnsta kosti 30 létust þegar púðurkerlingar sprungu í rútu í Pakistan

Að minnsta kosti 30 manns létust þegar púðurkerlingar sprungu í rútu sem ók gesti úr brúðkaupi í Lahore í austurhluta Pakistan í dag. Að sögn lögreglu voru um 50 manns um borð í rútunni þegar slysið varð. 20 voru fluttir á sjúkrahús og eru margir alvarlega slasaðir og er talið að tala látinna muni hækka.

Að sögn lögreglu köfnuðu mörg fórnarlambanna þ.á.m. konur og börn í rútunni þar sem um aðeins eina útgönguleið var að ræða.

Púðurkerlingar valda mörgum dauðsföllum í Pakistan vegna þess að fyllsta öryggis er ekki gætt.

Að sögn lögreglu varð rútan alelda á örskotsstundu og því reyndist afar erfitt að reyna bjarga rútufarþegunum. Sumir farþeganna brenndust svo illa að ómögulegt er að bera kennsl á þá.

Fréttaritari BBC í Pakistan segir að flugeldar séu afar vinsælir nú þegar brúðkaupstímabilið stendur yfir skömmu fyrir veturinn.

Margir hafa látist við svipaðar aðstæður. Sjaldan hafa þó jafnmargir látist í einu og nú.

Fréttavefur BBC greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert