Vildi myrða George W. Bush

Bush ásamt Bono árið 2006.
Bush ásamt Bono árið 2006. Reuters

Bandaríkjamaðurinn Ahmed Omar Abu Ali var í dag dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að ganga til liðs við Al Qaeda-samtökin og aðstoða þau við að skipuleggja morðtilraun á George W. Bush, þáverandi forseta Bandaríkjanna.

Dómurinn, sem kveðinn var upp af dómaranum Gerald Bruce í Virginíu-ríki, felldi úr gildi fyrri dóm sem hljóðaði upp á 30 ár. Sá dómur þótti of „mildur“  í augum áfrýjunardómstóls.

Abu Ali, sem er 28 ára, var sakfelldur árið 2005 fyrir ýmis brot og eitt þeirra var að útvega Al Qaeda-hryðjuverkasamtökunum gögn og veita þeim stuðning. Saksóknarar lögðu áherslu á að Abu Ali hefði verið viðriðinn áætlun um að ráða fyrrum forsetann af dögum annað hvort með því að skjóta hann, koma fyrir bílasprengju í grennd við hann eða með sjálfsmorðsárás.

Abu Ali var handtekinn í Saudi-Arabíu árið 2003 þar sem hann hafði verið að læra guðfræði.

Að sögn saksóknara hafði Abu Ali ýmislegt á prjónunum - hann hafði stungið upp á ýmsum hryðjuverkum sem fólu meðal annars í sér að myrða bandaríska þingmenn og ráðherra. Hann hafði aukinheldur áætlanir um að frelsa fanga í Guantanamo og vildi aðstoða Al Qaeda við að skjóta rótum í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Erlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Fimmtudaginn 16. maí

Miðvikudaginn 15. maí