Breskir hermenn hörfa frá Basra

Bandarískir hermenn á ferð skammt frá Basra.
Bandarískir hermenn á ferð skammt frá Basra. AP

Breskir hermenn hafa hörfað frá Basra, annarri stærstu borg Íraks, vegna mikillar mótspyrnu Íraka. Er þar um að ræða flokka í sjöunda stórfylkinu, svonefndar Eyðimerkurrottur, sem urðu fyrir sprengjuárásum og einnig fyrir árásum skæruliða sem gerðu árásir íklæddir borgaralegum fötum. Þá segja breskir hermálafulltrúar að skæruliðarnir beiti einnig konum og börnum sem tálbeitum. Sjöunda stórfylkið hafði áður umkringt Basra.

Eyðimerkurrotturnar ákváðu að hörfa frá borginni eftir árás frá íröskum skæruliðum sem klæddir voru í venjuleg föt líkt og um óbreytta borgara væri að ræða. Talsmenn breska hersins segjast hafa algerlega vanmetið styrk Íraka og hollustu borgarbúa við stjórn Saddams Husseins Íraksforseta.

„Við erum að fara yfir stöðuna. Við bjuggumst við því að margir íraskir hermenn gæfust upp og að fljótlega væri unnt að hefja neyðaraðstoð við borgarbúa,“ segir Patrick Trueman. „Raunin varð önnur. Það er umtalsverður fjöldi manna í Basra sem er ákaflega hliðhollur Íraksstjórn. Fólkinu er launuð hollustan með því að tryggja því aukin lífsgæði en öðrum.“

Breskir og bandarískir hermenn eiga í hörðum bardögum við Íraka í suðausturhluta landsins, í nágrenni Basra og svo í hafnarborginni Umm Qasr. Hernaðarskipuleggjendur bjuggust við lítilli mótspyrnu á svæðinu vegna þess að þeir héldu að shííta-múslima, sem eru í meirihluta þar og hafa verið kúgaðir af súnní-múslimum í suðrinu, myndu fegnir vilja losna undan stjórn Saddams.

Bresku hermennirnir ákváðu að hörfa eftir að Írakar réðust gegn þeim með harðri sprengjuárás þar sem þeir höfðu sett upp vegartálma á götum inn í borgina frá norðri og suðri.

Íraska barnið á myndinni er sagt hafa særst í bardögum …
Íraska barnið á myndinni er sagt hafa særst í bardögum um Basra. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert