Lést af völdum sára - þrír handteknir

Lögreglumenn utan við húsið þar sem til átakanna kom.
Lögreglumenn utan við húsið þar sem til átakanna kom. mbl.is/Júlíus

Einn karlmaður lést af völdum sára, sem hann hlaut eftir að til deilna og átaka kom milli manna í fjölbýlishúsi í Hjallahverfi í Kópavogi í gærkvöldi. Annar var fluttur á sjúkrahús þar sem hann þurfti að gangast undir aðgerð vegna áverka. Hann mun ekki vera í lífshættu. Þrír karlmenn voru handteknir á vettvangi. Lögreglan segir að líkur séu á að eggvopn hafi verið notað í átökunum.

Lögreglan var kvödd á staðinn um kl. 22:30. Fleira fólk var í íbúðinni þegar til átakanna kom. Sá er lést var 29 ára að aldri. Lögreglan segir í tilkynningu, sem send var út í nótt, að mennirnir, sem þekktust allir, séu af erlendu bergi brotnir en búsettir hér á landi. Yfirheyrslur standi yfir og rannsókn sé skammt á veg komin. Óljóst sé því um atvik að öðru leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert