Húsleit hjá Valitor

Visa
Visa

Í morgun komu fulltrúar Samkeppniseftirlitsins í starfsstöðvar Valitor, útgefanda Visa-korta á Íslandi, að Laugavegi 77 í Reykjavík og framkvæmdu húsleit vegna kvörtunar sem eftirlitinu hafði borist frá keppinautnum Borgun, áður Eurocard, um meinta misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

 Í tilkynningu frá Valitor kemur fram að félagið telur kæru Borgunar ekki eiga við rök að styðjast „enda hefur fyrirtækið fylgt í hvívetna fyrirmælum laga og reglna um hegðun á markaði. Húsleitin er liður í meðferð þessa máls og hefur Valitor veitt Samkeppniseftirlitinu greiðan aðgang að umbeðnum gögnum."

Í janúar í fyrra náðu Greiðslumiðlun (nú Valitor), Kreditkort (nú Borgun) og Fjölgreiðslumiðlun sáttum við Samkeppniseftirlitið um að greiða samtals 735 milljónir króna í sekt vegna brota á samkeppnislögum. Í sáttinni felst einnig að Greiðslumiðlun og Kreditkort viðurkenna að hafa haft með sér langvarandi og víðtækt ólögmætt samráð. Tók Fjölgreiðslumiðlun að hluta til þátt í því.

Upphaf málsins er að 13. júní 2006 gerði Samkeppniseftirlitið húsleit í starfsstöð Greiðslumiðlunar. Á grundvelli gagna sem þar fundust var síðar sama dag leitað hjá Kreditkortum. Í mars árið 2007 var síðan gerð húsleit hjá Fjölgreiðslumiðlun.

Greiðslumiðlun sneri sér til Samkeppniseftirlitsins árið 2007og óskaði eftir að sátt yrði gerð í málinu og náðist hún í lok nóvember það sama ár. Kreditkort og síðar Fjölgreiðslumiðlun óskuðu síðar eftir því að gera einnig sátt í málinu. Í sáttinni fólst að Greiðslumiðlun greiddi 385 milljónir í sekt, Kreditkort 185 milljónir og Fjölgreiðslumiðlun 165 milljónir.

Kreditkort
Kreditkort AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert