Fréttaskýring:Borga 100 milljónir á mánuði

Hjúkrunarheimilið Mörk við Suðurlandsbraut
Hjúkrunarheimilið Mörk við Suðurlandsbraut

Talsvert fleiri íbúar á hjúkrunar- og dvalarheimilum aldraðra taka þátt í rekstrarkostnaði heimilanna nú en fyrir þremur árum. Hámarksgreiðsluþátttaka er meira en 70.000 krónum hærri en árið 2007. Á sama tíma hefur öldrunarrýmum fækkað um rúmlega 350.

Álíka margir íbúar öldrunarstofnana greiða hámarksgjald fyrir dvölina nú og fyrir þremur árum, en gjaldið hefur hækkað umtalsvert. Í júlí síðastliðnum greiddu 39 vistmenn hámarksgreiðslu, sem er tæpar 282.000 krónur á mánuði. Árið 2007 var þetta hámarksgjald greitt af 38 íbúum hjúkrunar- og vistheimila, en þá var það talsvert lægra, eða um 210.000 krónur. Í júlí í ár var kostnaðarþátttaka íbúa á öldrunarstofnunum samtals um 99 milljónir. Sé gert ráð fyrir að hún sé svipuð alla mánuði ársins gæti upphæðin á ári verið um 1,2 milljarðar.

Yfir 16% borga yfir 100.000

Þeim sem eru í næsthæsta gjaldaflokknum hefur fjölgað mikið frá ágúst 2007. Þá greiddu tveir vistmenn öldrunarstofnana upphæð, sem þá var á bilinu 200.001 – 210.178 krónur. Í júlí í ár greiddu 74 vistmenn gjald í þessum flokki, en það hefur hækkað verulega og er nú á bilinu 200.001 – 281.870 krónur.

Það sama á sér stað í næsta gjaldflokki fyrir neðan, sem er á bilinu 100.001 – 200.000 krónur. 141 vistmaður greiddi þessa upphæð í ágúst 2007, en 264 í júlí 2010. Þegar þrír hæstu gjaldaflokkarnir eru lagðir saman kemur í ljós að nú greiða yfir 16% íbúa öldrunarheimila yfir 100.000 krónur í mánaðarlegan dvalarkostnað úr eigin vasa. Sambærilegur fjöldi árið 2007 var rúm 5%.

Færri borga ekki neitt

Árið 2007 greiddu 203 eða 7,5% vistmanna á öldrunarheimilum 50.001 – 100.000 krónur í mánaðarlegt dvalargjald. Í ár var talan komin upp í 305 sem eru 13%. Vistmenn í næstlægsta gjaldaflokknum, sem er 1000 – 50.000 krónur, voru 568 eða um 24% í júlí í ár, en árið 2007 voru þeir 476 eða um 17%.

Enn tekur þó stór hluti íbúanna ekki þátt í greiðslunni, en þeim hefur samt fækkað mikið. Um 47% allra þeirra sem dvöldu á öldrunarstofnunum í júlí síðastliðnum greiddu engan dvalarkostnað. Hlutfall þeirra hefur lækkað jafnt og þétt frá árinu 2007, en þá var það 68%.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir dvalar- og hjúkrunarheimilum daggjöld. Daggjöld eiga að borga fæði, umönnun, læknisþjónustu og lyf. Gjaldið er 9.267 krónur á dag vegna íbúa á dvalarheimilum, sem eru um 287.000 á mánuði. Samsvarandi greiðsla Tryggingastofnunar vegna íbúa á hjúkrunarheimilum er á bilinu 558.000 til 691.000 á mánuði, það fer eftir þörf fyrir hjúkrun og umönnun.

Greiðsluþátttaka yfir 65.005 kr

Á vef Tryggingastofnunar ríkisins segir að þátttaka íbúa í kostnaði á öldrunarheimilum sé tekjutengd og reiknuð út á grundvelli tekjuáætlunar. Nemi mánaðartekjur íbúa yfir 65.005 kr á mánuði eftir skatt, þá tekur hann þátt í dvalarkostnaði með þeim tekjum sem umfram eru. Greiðsluþátttaka fer þó aldrei yfir hámarkið, sem nú er 281.871 króna. Viðkomandi heimili innheimtir hlut íbúa í dvalargjaldinu.

Að lokinni álagningu skattyfirvalda ár hvert, er greiðsluþátttakan gerð upp hjá íbúunum. Þá eru bornar saman þær tekjur á tekjuáætlun sem þátttakan var reiknuð út frá og endanlegar tekjuupplýsingar í skattframtali. Tryggingastofnun gerir þátttökuna upp við heimilin sem sjá svo um að gera upp við íbúa.

Ef í ljós kemur að þátttakan var of lág, innheimtir heimilið það sem vantar upp á. Komi hins vegar í ljós að þátttakan var of há, endurgreiðir heimilið inneignina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert