Ótímabært að tala um skort

Íslenskar hænur fluttar til Bandaríkjanna.
Íslenskar hænur fluttar til Bandaríkjanna. mbl.is

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðneytið leggur nú mat á það hvort ástæða sé til að leyfa aukinn innflutning á kjúklingi. Töluvert hefur verið um salmonellusmit á árinu, og hafa Samtök verslunar og þjónustu krafist þess að innflutningur verði leyfður án aðflutningsgjalda vegna þessa.

Í bréfi SVÞ til ráðuneytisins er því haldið fram að innlendir kjúklingaframleiðendur séu „engan veginn í stakk búnir til að annað innanlandsþörf“ fyrir kjúkling.

„Þetta er auðvitað allt í mjög alvarlegri skoðun, eins og alltaf hér innan ráðuneytisins,“ segir Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins. „Það er reynt að leggja mat á það hvort einhver skortur sé á kjúklingi [í verslunum], en þær upplýsingar sem við höfum fengið hafa nú ekki stutt það.“ Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafi verið bætt úr skorti í verslunum á mánudag og þriðjudag.

Bjarni segir þó að ekki liggi allar upplýsingar fyrir, og því ótímabært að segja hvort fullyrðing SVÞ sé beinlínis röng.

„Ég vil ekkert fullyrða um það, en það þarf einfaldlega að fá upplýsingar um það. Á meðan verið er að afla þeirra ganga er best að segja ekkert um það hvað muni vera í þeim. Það er alveg ljóst að þarna eru hagsmunir á báða bóga. Það er verið að meta gögn beggja aðila með í huga. Annars vegar hagsmuni innflytjenda, hins vegar hagsmuni framleiðenda, að ekki sé flutt inn. Ráðuneytið reynir aftur á móti að meta þetta út frá hagsmunum neytenda,“ segir Bjarni.

Vilja auka innflutning á kjúklingum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert