„Þetta var ekkert grín“

Sindri Snær Birgisson (t.h.) var sýknaður af ákæru um undirbúning …
Sindri Snær Birgisson (t.h.) var sýknaður af ákæru um undirbúning hryðjuverka. Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningadeild ríkislögreglustjóra, segir að sýknudómurinn hafi ekki komið sér á óvart. Samsett mynd/mbl.is/Hallur Már/Eggert

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningadeild ríkislögreglustjóra, segir að sýknudómur í hryðjuverkamálinu svokallaða hafi ekki komið sér á óvart en telur rétt að Landsréttur taki málið fyrir.

Hann segir að embætti ríkislögreglustjóra taki málefnalega gagnrýni vegna rannsóknar málsins til sín, en ef að embættið stæði í sömu sporum í dag yrðu hlutirnir meðhöndlaðir á svipaðan hátt.

Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson voru sýknaðir af ákæru vegna undirbúnings á hryðjuverkum í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir viku síðan. Mennirnir voru þó dæmdir fyrir stórfellt vopnalagabrot. Sindri Snær var dæmdur í tveggja ára fangelsi og Ísidór í 18 mánaða fangelsi.

Embætti ríkislögreglustjóra var langt komið með rannsóknina í september árið 2022 áður en embættið þurfti að segja sig frá málinu sökum vanhæfis.

Blaðamaður mbl.is settist niður með Runólfi í húsakynnum ríkislögreglustjóra til þess að fara yfir þetta einstaka mál í íslenskri réttarfarssögu.

Niðurstaðan kom ekki vonbrigði

Fannst þér þetta óvænt niðurstaða?

„Nei, hvorki óvænt né vonbrigði eða neitt þannig, heldur ítarlegur og vel rökstuddur dómur fjölskipaðs dóms,“ segir Runólfur en þrír dómarar skipuðu dóminn.

Hann bendir á að það komi fram í dóminum að aðgerðir lögreglu hafi verið réttmætar til að tryggja öryggi almennings en orðrétt segir: „Viðurstyggileg ummæli beggja ákærðu og þær athafnir þeirra sem þegar eru raktar gáfu að mati dómsins fullt tilefni til aðgerða lögreglu í málinu er ákærðu voru handteknir 21. september 2022.“

Ákæruvaldið á eftir að taka ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað til Landsréttar. Verjendur sakborninganna sögðu í viðtali við mbl.is daginn sem dómur féll að í þeirra huga væri ekki tilefni til að áfrýja málinu.

Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson, verjendur Sindra og …
Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson, verjendur Sindra og Ísidórs í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel það mikilvægt að efra dómsstigið fái að fjalla um þetta líka. Það eru lögfræðileg álitaefni þarna,“ segir Runólfur og vísar þar til þess að mennirnir voru ákærðir fyrir brot gegn 20. grein almennra hegningarlaga sem fjallar um tilraun og hlutdeild til brots.

„Að máta það við hryðjuverk hlýtur að vera mikil áskorun.“

Skoða þurfi löggjöfina

Í dóminum segir: „Forsenda þess að unnt sé að sakfella ákærða fyrir slíka tilraun er að hann hafi ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins.“ Ótvírætt er þar lykilorð.

Runólfur nefnir að það sé ekki hlutverk dómstóla að veita lögfræðilega ráðgjöf en að það þurfi að velta því upp hvort löggjöfin sé sambærileg nágrannaríkjum og öðrum samstarfsríkjum sem hafa orðið fyrir hryðjuverkum hvað þetta varðar.  

Í dómi héraðsdóms er sérstaklega minnst á að bæði sækjandi og verjendur vísuðu til danskra dóma í málflutningi sínum. Munur er á orðalagi íslensku og dönsku laganna að því leyti að þau síðari innihalda ekki orðið „ótvírætt“.

„Getur þetta gefið til kynna aðeins vægari sönnunarkröfur til undirbúningsathafna að dönskum rétti í samhengi við mat á ásetningi,“ segir í dóminum.

Sindri Snær og Ísidór í héraðsdómi er aðalmeðferð málsins fór …
Sindri Snær og Ísidór í héraðsdómi er aðalmeðferð málsins fór fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þetta orð „ótvírætt“, er það eitthvað sem þú telur að þyrfti að endurskoða í íslenskri löggjöf?

„Já, við höfum velt þessu einmitt fyrir okkur í kjölfarið og eigum alltaf gott samtal við lögfræðinga dómsmálaráðuneytisins. Við munum setjast niður og fara yfir þetta.“

Hann segir þó að ríkislögreglustjóri hafi ekki átt sérstakt samtal við ráðuneytið um hvernig megi skýra 20 gr. hegningarlaga.

Víða ólögmætt að eiga öfgafullt efni

Runólfur nefnir að mörg Evrópuríki endurskoðuðu og breyttu sinni löggjöf eftir að hryðjuverkaárásir áttu sér stað í ríkjunum.

Þá nefnir hann að í mörgum Evrópuríkjum sé varsla og miðlun efnis sem að er ofbeldisfullt, öfgafullt og/eða hryðjuverkatengt (e. terrorist content online) ólögmætt.

Í ákærunni á hendur Sindra og Ísidór er tekið fram að liður í undirbúningi þeirra á hryðjuverkum var að sækja, móttaka og tileinka sér efni um þekkta aðila sem framið hafa hryðjuverk, aðferða-og hugmyndafræði þeirra. Í tölvum þeirra fannst meðal annars efni fjöldamorðingjanna Anders Behring Breivik og Brenton Tarrant.

Stefnuyfirlýsing Anders Bering Breivik fannst á tölvum sakborninganna. Þá vitnuðu …
Stefnuyfirlýsing Anders Bering Breivik fannst á tölvum sakborninganna. Þá vitnuðu þeir til ritsins í samtölum sínum. AFP/Cornelius Poppe

„Það er eitt af því sem við þurfum að skoða,“ segir Runólfur og bætir við að embættið eigi í óformlegu samtali við ráðuneytið um vörslu og miðlun hryðjuverkatengds efnis og hvernig löggjöfin varðandi það er í nágrannaríkjum Íslands.

Hann segir að það sé tiltöluleg auðvelt  að nálgast hatursfullt efni sem hvetji til ofbeldis á netinu.

Veistu hvort það sé mikið dæmt í þessum ríkjum fyrir slíka vörslu?

„Já, bara sem dæmi að Evrópulögreglunni, Europol, rekur það sem er skammstafað ECTC – European Counter Terrorism Centre – og þar starfar fjöldi sérfræðinga, bæði lögreglumenn og aðrir sérfræðingar. Þau [ECTC] studdu við 126 rannsóknir í Evrópulöndum árið 2023. Í langflestum þeirra mála var einmitt verið að grípa inn í svona ískyggilega atburðarrás, og það snýst um mögulegan undirbúning og skipulagningu.“

Runólfur segir að gríðarleg þekking sé til staðar hjá Europol í þessum málum en ríkislögreglustjóri naut meðal annars aðstoðar Europol í rannsókn þessa máls.

Meðtaka málefnalega gagnrýni

Sérfræðingur Europol sagði fyrir dómi að íslenska lögreglan hafi 100% komið í veg fyrir hryðjuverk.

Runólfur segir að embætti ríkislögreglustjóra standi við það mat og að dómurinn taki undir það.

Verjendur sakborninganna settu ítrekað út á aðgerðir lögreglu og töldu að yfirvofandi ógn hafi verið oftúlkuð.

Tekur þú að einhverju leyti undir að aðgerðir lögreglu hafi verið ótímabærar?

„Við tökum alltaf til okkar málefnalega gagnrýni sem að kemur frá einhverjum sem hefur þekkingu og skilning á starfsumhverfi og skyldum lögreglu. Þannig að við tökum alla málefnalega gagnrýni til skoðunar. Hvað varðar verjendurna í þessu máli þá ætla ég að nýta mér réttinn til þess að tjá mig ekki um það,“ segir hann en Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson voru verjendur Sindra og Ísidórs í málinu.

Blaðamannafundurinn frægi

Sama dag og Sindri og Ísidór voru handteknir gaf ríkislögreglustjóri út tilkynningu þar sem sagði að hættuástandi hafi verið afstýrt. Degi síðar var haldinn blaðamannafundur þar sem greint var frá meintum undirbúningi að hryðjuverkum.

Var nauðsynlegt að upplýsa almenning með þessum hætti? Má ekki ætla að þetta orðalag hafi skapað ótta og hræðslu?

„Þetta er vandrataður meðalvegur – á hvaða hátt lögregla upplýsir almenning. Það er auðvitað mikil eftirspurn eftir því að lögregla svari fjölmiðlum og upplýsi almenning,“ segir Runólfur og bætir við að alltaf sé um mat að ræða.

„Í stærri aðgerðum þá hefur það þótt tilhlýðilegt að fá alla fréttamiðlana saman á sama stað og á sama tíma til að miðla upplýsingum á þann hátt. Stundum er þetta gert í formi tilkynninga.“

Hann nefnir að hjá embættinu starfi samskiptastjóri sem starfsmenn ráðfæri sig við um hvernig sé best að haga upplýsingamiðlun. „Það er eins og allt annað hjá okkur – í sífelldri endurskoðun og er alltaf að þróast. Og eins og ég segi, við tökum allri málefnalegri gagnrýni hvað það varðar.“

Frá upplýsingafundi lögreglu 22. september 2022.
Frá upplýsingafundi lögreglu 22. september 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Runólfur bætir við að tilgangurinn með því að fremja hryðjuverk er meðal annars að hræða almenning. Það sé einn af þeim þáttum sem þurfi að horfa til er kemur að upplýsingagjöf, „[það er] reynt að lægja öldurnar ef það magnast upp einhver ótti“.

Hann nefnir að um leið og sérsveitarmenn sjáist í aðgerðum byrji síminn að loga hjá fulltrúum embættisins í leit að svörum um hvað sé í gangi. Þetta mál sé engin undantekning í því, sérstaklega þar sem aðgerðir áttu sér stað á nokkrum stöðum. Runólfur segir mikilvægt að upplýsa fjölmiðla og almenning í þeim tilvikum til þess að koma í veg fyrir misskilning.

Hættustig ekki lækkað

Viðbúnaðarstig lögreglu vegna hryðjuverka var hækkað eftir að tvímenningarnir voru látnir lausir úr gæsluvarðhaldi í desember árið 2022. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, sagði í viðtali við mbl.is í september árið 2023 að hættustigið gæti lækkað með sakfellingu mannanna.

Runólfur greindi frá því í viðtali við Rúv á miðvikudag að sýknudómurinn yrði ekki til þess að hættustigið yrði lækkað. Stendur hættustigið því á þriðja stigi af fimm, sem merkir að aukin ógn er til staðar á hryðjuverkum á Íslandi.

Spurður af hverju hættustigið var ekki lækkað bendir Runólfur í skýrslu greiningardeildar um hryðjuverkaógn á Íslandi sem er gefin út árlega og kom út daginn áður en aðalmeðferð í málinu hófst.

Runólfur nefnir að í skýrslunni er minnst á 13 þætti eða áhættuvísa sem liggja að baki því að ákvarða hættustig vegna hryðjuverka. Einn þessara þátta var þetta mál.

„Dómurinn sem slíkur er bara einn þáttur af mörgum. Hugsanlega er þetta ekki endanlegur dómur,“ segir hann.

Runólfur bendir á að öryggisþjónustur í Evrópu vari við því að hryðjuverkaógn hafi aukist í Evrópu, Ísland er þar ekki undanskilið. Hann segir að mörg Evrópuríki séu í efsta eða næst efsta stigi, það er að segja að alvarleg eða mjög alvarleg ógn sé til staðar. Því sé minni ógn hér á landi en í nágrannríkjum okkar en hún sé þó til staðar.

Þá nefnir Runólfur einnig að það sé mikilvægt er verið sé að meta áhættu þá verði að taka veikleika með í reikninginn, og nefnir sem dæmi ákveðna veikleika í lagaumhverfi Íslands og getu lögreglu til að takast á við stórar árásir.

Myndbirtingar af mönnunum dregið úr áhættunni

Nú voru þessir menn dæmdir til fangelsisvistar fyrir vopnalagabrot sem þeir eiga eftir að afplána. En metur embættið svo að ógn stafi enn af þeim eftir að þeir eru frjálsir ferða sinna? Er það eitthvað sem þið munið fylgjast sérstaklega með?

„Af augljósum ástæðum á ég erfitt með að svara þessu mjög skýrt. Við teljum þarna að í september 2022 að við stigum þar inn í atburðarrás sem við töldum nauðsynlegt að stíga inn í – á grundvelli margra mismunandi þátta var sú ákvörðun tekin. Í kjölfarið hafa verið myndbirtingar af þessum mönnum og annað sem að mögulega mun draga úr hættunni.

En eins og ég segi þá er vont fyrir mig að svara þessu ítarlega hvort að við verðum í einhverju sérstöku eftirliti eða annað,“ segir Runólfur og ítrekar að þetta mál, og Sindri og Ísidór, sé bara einn af mörgum þáttum þegar hryðjuverkaógn á Íslandi sé metin.

Runólfur segir að myndbirtingar fjölmiðla af Sindra og Ísidór dragi …
Runólfur segir að myndbirtingar fjölmiðla af Sindra og Ísidór dragi úr ógn sem gæti stafað af þeim. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks

Leiða má líkum að því að þeir Sindri og Ísidór ekki þeir einu á landinu sem hafa slíkar öfgafullar skoðanir og finni fyrir einhverskonar hatri gagnvart ákveðnum samfélagshópum. 

Runólfur tekur undir það og nefnir að lögregla hafi átt í þéttu samtali við til dæmis Samtökin '78 og aðra fulltrúa innan hinsegin samfélagsins, „og þau eru að segja okkur öll að þau eru að upplifa bakslag í sinni réttindabaráttu og greina aukna hatursorðræðu“.

Sogast inn í sýndarveruleika

Runólfur nefnir að Bretar hafi í vikunni skilgreint öfgahyggju (e. extremism) upp á nýtt og hvaða neikvæðu áhrif hún hefur á samfélagið.

Hann nefnir tvær helstu kenningarnar í hugmyndafræði hægri öfgahyggju (e. right wing extremism). Annars vegar „siege“-kenningin og hins vegar „acceleration“-kenningin.

Sú fyrri snýst meðal annars um yfirburði hvíta kynstofnsins, gyðingahatur, hatur gagnvart hinsegin fólki og hatur gagnvart stofnunum samfélagsins.

„Þegar að fólk sogast inn í einhverskonar spjallborð eða sýndarveruleika þá er ákveðin hætta á að fólk verði innrætt og grípi þá mögulega til ofbeldisverka. Eftir því sem efnið er meira og ofbeldisfyllra, aukast þá væntanlega líkurnar á því.“

Hann segir að samstarfsaðilar embættisins hafi miklar áhyggjur af þessu og að slæm þróun sé í þessum málum.

Það er ekki fyndið lengur

Verjendur Sindra og Ísidórs sögðu ítrekað að um grín væri að ræða þegar það kom að samskiptum félaganna. Sjálfir sögðust þeir vera með mjög svartan húmor og að þeim hefði aldrei órað fyrir því að samskipti þeirra yrðu gerð opinber.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf út skýrslu sem bar heitið, It‘s not funny anymore – Far-right extremists‘ use of humour, eða Það er ekki fyndið lengur – notkun hægri öfgamanna á húmor, árið 2021. Skýrslan fjallar um aukningu á því að afsaka hatursorðræðu og ofbeldisdýrkun með þeim rökum að um grín sé að ræða.

„Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sá sérstaka ástæðu til að gefa út opinbera skýrslu um þetta, að það væri markvisst verið að – innan þessarar hægri ofbeldishyggju senu – að afsaka sig með einhverskonar gríni.“

Runólfur nefnir að embættið hafi fengið alls kyns tilkynningar inn á sitt borð um samtöl eða ummæli sem innihaldi hótanir án þess að það endi á sama hátt og þetta mál.

„Við höfum gripið inn í, farið og talað við fólk, talað við foreldra ef þetta eru unglingar. Þannig að mál sem hafa ekki verið alveg skýr, þau enda nú ekki með að ræsum út sérsveitina og förum í handtökur á fleiri en einum stað, heldur höfum við gripið til annarra úrræða.“

Runólfur segir að í þeim tilfellum var ekki einnig um að ræða stórfellt vopnalagabrot líkt og í þessu máli.

„Ég held að þegar umfjöllun fjölmiðla fór meira á dýptina þá hafi fólk séð að þetta var ekkert grín,“ segir hann um samtöl Sindra og Ísidórs.

Ungir karlmenn útsettir

Runólfur segir það vera samdóma álit sérfræðinga að ungir karlmenn sem upplifi sig jaðarsetta í samfélaginu og hafi mögulega lent í einhverjum áföllum séu helst útsettir fyrir hægri öfgahyggju.

Í aðalmeðferð málsins kom fram að bæði Sindri og Ísidór höfðu orðið fyrir áföllum í æsku.

Hann segir mikilvægt að skólakerfið, félagsmálayfirvöld og heilbrigðismálayfirvöld eigi í góðri samvinnu, þekki einkennin á neikvæðri þróun í þessum efnum og geti gripið þessa einstaklinga.

Friðhelgi einkalífsins vegist á við heimildir lögreglu

Spurður hvort að lögreglan hafi burði til þess að fylgjast með einstaklingum sem aðhyllast öfgahyggju og ofbeldisfullum skoðunum, segir Runólfur að það sé ýmsum takmörkunum háð.

Hann nefnir að stórar hugsjónir spili þar inn í svo sem friðhelgi einstaklingsins og heimilisins vegist á við heimildir lögreglu.

„Við leggjum áherslu á það að Alþingi tryggi okkur tól og tæki, og þar með talið lagaumhverfi, þannig að okkur sé kleift að tryggja öryggi almennings.“

Runólfur segir að hann hafi aldrei heyrt yfirmann innan lögreglunnar kvarta yfir góðu og öflugu eftirliti með heimildum lögreglu.

„Þetta tvennt þarf að fara saman. Ef að valdheimildir lögreglu eru efldar þá þarf að fylgjast betur með lögreglu.“

Þá nefnir hann að ítrekað hafi verið bent á að íslenska lögreglan sé ekki á pari við helstu nágrannaþjóðir okkar er kemur að ákveðnum lagalegum þáttum.

Runólfur segir að þróunin hvað varðar skipulagða brotastarfsemi og hryðjuverkaógn sé mjög svipuð hér á landi og annars staðar, ólíkt því sem var talið fyrir 20 árum, þ.e.a.s. að Ísland væri eftir á í þessum málum. Hann segir að tæknin og samfélagsmiðlar spili þar stórt hlutverk.

Myndu gera hlutina á svipaðan hátt

Hvað myndirðu segja að embætti ríkislögreglustjóra hafi lært af rannsókn málsins?

„Það er alltaf lærdómur í öllu. Við rýnum hér allt sem við getum, og það er okkar mat að mestu leyti, að ef við stæðum í þessum sporum aftur að þá myndum við gera hlutina á svipaðan hátt. Vissulega einhver atriði sem við hefðum kannski nálgast öðruvísi. En svona heilt á litið að þá voru þessar ákvarðanir sem voru teknar í september árið 2022 voru fyrst og fremst byggðar á því mati að tryggja öryggi almennings,“ segir hann og bætir við að nægilega miklar upplýsingar voru komnar fram til að handtaka Sindra og Ísidór.

Runólfur nefnir þó að það sé ekki endilega best fyrir embættið að meta eigin vinnubrögð og því sé gott að fá fram fjölskipaðan dóm héraðsdóms til þess að fara yfir þetta mat ríkislögreglustjóra og taka undir það.

Erfitt að halda úti eftirliti til langs tíma

Verjendur sakborninganna gagnrýndu meðal annars að lögregla fékk heimild frá héraðsdómi til eftirlits og ákveðinna rannsóknaraðgerða í fjórar vikur í september 2022, en nýttu ekki þá heimild til fulls þar sem að mennirnir voru handteknir degi síðar.

Sveinn Andri og Sindri Snær.
Sveinn Andri og Sindri Snær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Runólfur segir að það sé gríðarlega erfitt að halda úti eftirliti allan sólarhringinn í langan tíma, þá sérstaklega á tveimur einstaklingum. „Það er mjög flókin og áhættusöm lögregluaðgerð.“

Hann nefnir nýlegt dæmi frá Bretlandi þar sem lögregla hafði eftirlit með einstaklingi grunaðan um undirbúning hryðjuverka sem týndist í aðgerðunum.

Leika sér ekki með öryggi borgara

„Við getum ekki verið að leika okkur eitthvað með öryggi almennings. Það er þá betra að stíga fast inn og taka ákvarðanir með það að leiðarljósi,“ segir Runólfur og bætir við að það sé frumskylda lögreglu.

„Markmiðið er ekki sakfelling þegar við erum að hugsa um öryggi almennings. Við tökum ákvarðanir fyrst og fremst vegna öryggis, ekki möguleikum á sakfellingu.“

Runólfur segir að það megi þó alveg velta því fyrir sér á hvaða tímapunkti væri nægjanlegt að grípa inn í svo að álíka mál leiði til sakfellingar. „Hversu mikið þarf að liggja fyrir? Hvað er tilraun? Hvað er undirbúningur? Hvað er skipulagning? Og hvað segja lögin að sé nægjanlegt til sakfellingar? Það er alltaf mat,“ segir hann.

Runólfur nefnir að þá þurfi allt „að smella saman“. Réttur mannskapur á réttum stað og allar bestu mögulegar upplýsingar, „enn sem komið er getum við ekki lesið hugsanir fólks þannig að við getum ekki séð á einhverjum hvað hann er að fara gera“.

Ríkissaksóknari hefur fjórar vikur frá birtingu dóms til þess að áfrýja hryðjuverkamálinu svokallaða til Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert