Grunur um undirbúning að hryðjuverkum

Frá upplýsingafundi lögreglu vegna aðgerða sérsveitarinnar í gær.
Frá upplýsingafundi lögreglu vegna aðgerða sérsveitarinnar í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppruna aðgerða ríkislögreglustjóra í gær, þar sem fjórir voru handteknir af sérsveitinni, má rekja til rannsóknar á ætluðum undirbúningi að hryðjuverkum. 

Mennirnir eru íslenskir karlmenn á þrítugsaldri og hafa legið undir grun um ætlaða framleiðslu skotvopna. Lagt hefur verið hald á tugi skotvopna, hálfsjálfvirkra þar á meðal, ásamt þúsundum skotfæra. Tveir af þeim einstaklingum sem voru handteknir í gær hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Annar í tvær vikur og hinn í eina.

Samfélagið okkar er nú öruggara en það var, að mati lögreglu.

Gegn borgurum og stofnunum

Við rannsókn lögreglu komu fram upplýsingar sem leiddu til gruns um að í undirbúningi væru árásir gegn borgurum ríkisins og stofnunum þess.

Þetta kom fram á upplýsingafundi ríkislögreglustjóra sem var boðaður í dag vegna umfangsmikilla rannsókna og aðgerða embættisins. 

Karl Stein­ar Vals­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra, Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu og Sveinn Ingi­berg Magnús­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá héraðssak­sókn­ara, voru á fundinum.

Fjórir handteknir í gær

Í gær var greint frá aðgerðum sér­sveit­ar­inn­ar á tveim­ur stöðum á höfuðborg­ar­svæðinu og í kjöl­farið til­kynnti rík­is­lög­reglu­stjóri að sér­sveit­in og lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hefðu hand­tekið fjóra ein­stak­linga. Sagði lög­regl­an að þar með hefði hættu­ástandi verið af­stýrt.

Tveir þeirra sem voru hand­tekn­ir voru tald­ir vopnaðir og hættu­leg­ir um­hverfi sínu.

Í til­kynn­ing­u frá lögreglu kom fram að rann­sókn­in snúi að skipu­lagðri glæp­a­starf­semi og viðamikl­um vopna­laga­brot­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert