Mennirnir haft „einhverskonar illvirki“ í huga

Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson.
Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur lýsir ummælum Sindra Snæs Birgissonar og Ísidórs Nathanssonar, sakborninganna í hryðjuverkamálinu, sem „viðurstyggilegum“ og „ógeðfelldum“. Dómurinn telur það hafa verið rétta ákvörðun að handtaka mennina, en að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna „ótvírætt“ að þeir hefðu verið að undirbúa hryðjuverk.

Mennirnir tveir voru dæmdir fyrir stórfelld vopnalagabrot í gær. Sindri var dæmdur í tveggja ára fangelsi og Ísidór í 18 mánaða fangelsi. Tæplega þriggja mánaða gæsluvarðhald dregst frá refsingunni.

Dómur héraðsdómaranna þriggja í málinu var birtur í dag og telur 87 blaðsíður.

Þar er farið ítarlega yfir ákæruna gegn Sindra og Ísidóri, og það sem að þeir og 24 vitni höfðu um málið að segja við aðalmeðferð málsins í febrúar. Nánar má lesa um skýrslutökurnar og vitnisburðina í umfjöllun mbl.is er aðalmeðferðin fór fram.

Ákæran í málinu var í 64 liðum en dómurinn metur þann hluta sem snýr að undirbúningi hryðjuverka heildstætt.

„Ótvírætt“ er lykilorð

Niðurstöðukafli dómsins er alls 20 blaðsíður. Þar segir að forsenda þess að unnt sé að sakfella ákærðu fyrir tilraun til hryðjuverka er að þeir hafi „ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins“.

Í þeim efnum geti tvennt komið til, annars vegar framkvæmdaathafnir og hins vegar undirbúningsathafnir.

Ljóst er að Sindri og Ísidór framkvæmdu ekki hryðjuverk og eftir stendur því hvort að ákæruvaldið hafi sannað að mennirnir hefðu „ótvírætt“ verið að undirbúa hryðjuverk.

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari minntist á í málflutningi sínum að íslensku hryðjuverkalögin hefðu verið fengin úr dönskum lögum. Bæði hann og verjendur vísuðu svo til danskra dóma í því samhengi í málflutningi sínum.

Karl Ingi Vil­bergs­son, sak­sókn­ari hjá embætti héraðssak­sókn­ara, við dómsuppsöguna í …
Karl Ingi Vil­bergs­son, sak­sókn­ari hjá embætti héraðssak­sókn­ara, við dómsuppsöguna í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dómi héraðsdóms segir að sá munur sé á orðalagi íslensku og dönsku laganna að þau síðari innihalda ekki orðið „ótvírætt“.

„Getur þetta gefið til kynna aðeins vægari sönnunarkröfur til undirbúningsathafna að dönskum rétti í samhengi við mat á ásetningi,“ segir í dóminum.
Í dóminum er bent á þá grundvallarreglu í íslenskum rétti að ákærði njóti vafans.

Skorti texta á milli tilvitnana

„Sú grundvallarregla gildir í refsirétti að engum verður refsað fyrir hugsanir sínar einar og sér,“ segir í dóminum og segir að það sama eigi við „um lauslegar bollaleggingar í samtali tveggja manna sem þeir gera ekkert til að framkvæma“.

Sindri og Ísidór og verjendur þeirra báru fyrir sig fyrir dóminum að samskipti þeirra hefðu listast af svörtum húmor.

Í dóminum segir að tillit sé tekið til þess sem verjendur Sindra og Ísidórs bentu á að það skorti á köflum texta á milli tilvitnana eins og þær hafa verið teknar upp í ákæru.

Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson, verjendur þeirra Sindra …
Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson, verjendur þeirra Sindra Snæs Birgissonar og Ísidórs Nathanssonar, í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá segir að dómurinn fellst á að viss ummæli hafi verið sögð í gríni, sbr. tilvísanir til kattar Ísidórs, Þorvaldar. Í aðalmeðferð málsins var meðal annars minnst á samskipti félaganna þar sem sagði að Þor­vald­ur væri til­bú­inn til að búa til rísin-eitur og smyrja því á hurðar­húna.

Þá er tekið fram að þetta grín sé þó undantekning: „Þvert á móti er þar oftast nær um að ræða ógeðfelld ummæli sem litast af hatri eða andúð í garð samkynhneigðra, gyðinga, múslima, stjórnmálamanna og yfirvalda og engan veginn kemur til greina að líta á þau sem einfaldlega ósmekklegan húmor eða merkingarlaust blaður.“

Sakborningarnir, Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson.
Sakborningarnir, Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einnig er tekið fram að samræður Sindra og Ísidórs áttu sér stað „yfir alllangt tímabil“.

Í dóminum segir að mikilvægt sé að þessi hatursfulla orðræða verði að setja í samhengi við aðra þætti ákærunnar, þar á meðal ásetning mannanna.

„Aftur á móti teljast ummælin ekki ein og sér slíkar undirbúningsathafnir sem fullnægt gætu því skilyrði 20. gr. laga nr. 19/1940 um að ákærði Sindri hefði ótvírætt sýnt þann ásetning í verki,“ segir í dóminum.

Skotvopnin ekki liður í undirbúningnum

Hluti af undirbúningsathöfnum Sindra samkvæmt ákæruvaldinu var að hafa framleitt þrívíddarprentuð skotvopn og skotfæri.

Dómurinn sýknar mennina hins vegar af framleiðslu skotfæra, þó að á heimili Sindra fundust tæki sem nota mátti til að þrívíddaprenta skotfæri.

Sindri sagði í skýrslutöku lögreglu í september árið 2022 að hann hefði útbúið byssukúlur. Hann neitaði hins vegar fyrir dómi að hafa notað búnaðinn sem fannst á heimili hans.

Þrívíddaprentari sem lögregla lagði hald á.
Þrívíddaprentari sem lögregla lagði hald á. mbl.is/Hólmfríður María

Í dóminum segir að ekkert annað sanni að mennirnir hefðu framleitt skotfæri og því eru þeir sýknaðir fyrir það brot. Þeir eru þó sakfelldir fyrir að hafa selt þrívíddaprentuð vopn sem Sindri bar því við að hafa gert auðgunarskyni.

Með hliðsjón af því þykir ekki dóminum ekki unnt að miða við að framleiðsla skotvopnanna hafi verið liður í undirbúningi hryðjuverka

Ósönnuð athugun á Gleðigöngunni

Í ákærunni segir að Sindri hafi tileinkað sér efni og hugmyndafræði þekktra hryðjuverkamanna. Sindri sagði fyrir dómi að Ísidór hefði sent sér slíkt efni óumbeðið.

Í dóminum segir hins vegar að Sindri hefði beðið um slíkt efni og leitað að því sjálfur á netinu. Því sé óhjákvæmilegt að líta svo á að Sindri hefði a.m.k. að einhverju leyti tileinkað sér slíkt efni.

Í einum ákærulið er Sindra gefið að sök að hafa hafa skoðað og kynnt sér efni á netinu sem tengdist mögulegum árásarþolum.

Sindri og verjandi hans Sveinn Andri.
Sindri og verjandi hans Sveinn Andri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann gengst við og sagði að um væri að ræða netgrúsk sem litaðist af hvatvísi.

Sindri neitaði þó að hafa farið á vettvang Gleðigöngunnar og mælt „bil á milli lokana“. Í dóminum segir að svo virðist sem þessi liður ákærunnar byggður á framburði Ísidórs hjá lögreglu sem hann dró síðar tilbaka fyrir dómi.

Ísidór sagði að framburður hans hjá lögreglu skýrðist af álagi í gæsluvarðhaldinu og jafnvel þvingunum lögreglu.

Þar sem að enginn önnur sönnunargögn liggja fyrir að þessar mælingar hafi átt sér stað telur dómurinn að ósannað sé að þær hefðu átt sér stað.

Öryggi borgara tryggt

„Viðurstyggileg ummæli beggja ákærðu og þær athafnir þeirra sem þegar eru raktar gáfu að mati dómsins fullt tilefni til aðgerða lögreglu í málinu er ákærðu voru handteknir 21. september 2022,“ segir í dóminum.

Lögregla hafi þar með sett öryggi borgaranna ofar rannsóknarhagsmunum.

Þá segir að það sé ákæruvaldsins að sanna sekt ákærða og dómara að meta hvort nægileg sönnun sé komin fram um hvert atriði og refsingu við brotum.

Í dóminum segir að Sindri hafi staðfastlega neitað því að ætla að fremja hryðjuverk. Honum hafi þó illa tekist að útskýra ýmsar athafnir sínar.

Fyrir liggi að hann hefði komið sér upp hættulegum vopnum, breytt einu þeirra í hálfsjálfvirkt, og orðið sér úti um mikið magn skotfæri sumarið 2022.

Dómurinn telur að Sindri hafi haft „einhverskonar illvirki“ í huga, þótt ekki liggi nákvæmlega fyrir hvert skotmark hans hefði orðið, hvar eða hvenær.

Dómurinn telur ekki sannað að Sindri hafi staðið að undirbúningi hryðjuverka og því er hann sýknaður af þeirri ákæru. Ísidór er óhjákvæmilega einnig sýknaður þar sem að hann var ákærður fyrir hlutdeild í broti Sindra.

Ekki sýnt iðrun

Líkt og áður sagði voru mennirnir dæmdir fyrir brot á vopnalöggjöf. Í dóminum segir að við ákvörðun um refsingu var litið til þess að þeir neituðu að miklu leyti sök og hafa ekki sýnt iðrun.

„Við matið vegur þungt að ákærðu ráku skipulagða starfsemi og framleiddu órekjanleg og stórhættuleg vopn sem þeir seldu í ágóðaskyni hverjum sem kaupa vildi,“ segir í dóminum og jafnframt að brot þeirra séu „stórfelld og fordæmalaus að alvarleika“.

Meðal brotanna sem þeir eru sakfelldir fyrir eru að hafa selt fimm þrívídda prentuð vopn og íhluti.

Skotfæri sem lögregla lagði hald á vegna málsins.
Skotfæri sem lögregla lagði hald á vegna málsins. mbl.is/Hólmfríður María

Í aðalmeðferð málsins var meðal annars deilt um um hvort mennirnir hefðu selt hljóðdeyfi með þrívídda prentuðu skotvopni. Sindri sagði fyrir dómi að þeir hefðu afhent olíusíu sem hefði verið skrúfað framan á byssuna.

Dómurinn telur sannað að mennirnir hefðu selt hljóðdeyfi og segir að það sé haldlaus málsvörn að hljóðdeyfirinn hefði einfaldlega verið olíusía þar sem að olíusíunni hefði bersýnilega verið breytt í því skyni að gegna hlutverki hljóðdeyfis.

Skiptir ekki máli að swift link-urinn virkaði ekki

Mennirnir eru einnig sakfelldir fyrir að hafa framleitt svokallaðan swift link, eða hröðunarstykki, sem getur gert riffil alsjálfvirkan svo ekki þarf ekki að sleppa gikkn­um til að hleypa af öðru skoti.

Ísidór játaði fyrir dómi að hafa þrívídda prentað íhlutinn en benti á að hann hefði ekki virkað. Það var síðar staðfest með rannsókn lögreglu.

Í dóminum segir að það hafi ekki þýðingu fyrir niðurstöðuna að íhluturinn hafi reynst ónothæfur og því eru þeir sakfelldir fyrir það brot.

Sindri eigandi árásarrifflanna

Þá var einnig deilt um í aðalmeðferðinni hvort að þrír rifflar sem fundust á heimili Sindra hefðu verið í eigu hans, eða eigu Birgis, föður hans, sem bjó hjá honum. Sindri var ekki með byssuleyfi en rifflarnir voru geymdir í byssuskáp inn í svefnherbergi hans. Sindri sagði fyrir dómi að hann hefði ekki haft aðgang að skápnum og að hann hefði einungis verið geymdur inn í fataskápnum hans þar sem að þar var pláss.

Dómarar telja hins vegar að af framburði Sindra og Ísidórs og vitna hjá lögreglu verði „ekki annað ráðið en að ákærði Sindri hafi verið eigandi allra téðra vopna“.

Árásarrifflarnir sjást hér efst á myndinni.
Árásarrifflarnir sjást hér efst á myndinni. mbl.is/Hallur Már

Í dóminum segir að framburður Sindra, Ísidórs og annarra vitna hvað þetta varðar hefði tekið miklum breytingum og engar skýringar komið í ljós vegna breytinganna, „einungis útúrsnúningar og lögreglunni jafnvel að ósekju gefin að sök annarleg vinnubrögð með því að vísa til þess að samantektir af framburðum væru rangar“. Birgir var meðal annars mjög ósáttur við vinnubrögð lögreglu er hann gaf skýrslu fyrir dóminum.

Þá segir í dóminum að skráning vopnanna á Birgi „hafi verið til málamynda þar sem ákærði hafði ekki skotvopnaleyfi“.

Vegna þessa féllst dómurinn ekki á mótmæli Sindra um upptökukröfu ákæruvaldsins á rifflunum.

Enginn eða takmarkaður sakaferill

Sindri og Ísidór voru þó sýknaðir í nokkrum ákæruliðum sem snéri að vopnalogabrotum.

Meðal annars í ákæruliðum sem snúa að því að hafa keypt skotfæri þar sem að ekki er að finna í lögum refsiheimild fyrir að kaupa skotvopn án skotvopnaleyfis.

Í dóminum segir að til mildunar refsingar mannanna fyrir vopnalagabrotin var horft til þess að þeir hafa játað brot sín að hluta og hafa engan eða takmarkaðan sakaferil. Sindri hefur þrisvar gengist undir lögreglustjórasátt vegna umferðarlagabrota en Ísidór hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot.

Það er nú embætti ríkissaksóknara að ákvarða hvort málinu verði áfrýjað til Landsréttar. Verjendur mannanna sögðu í viðtali við mbl.is í gær að í þeirra huga væri ekki tilefni til að áfrýja þessu einstaka máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert