Rangar ályktanir dregnar strax í upphafi

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs.
Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs Nathanssonar, krefst sýknu af öllum liðum ákæru á hendur Ísidóri. Til vara er krafist vægustu refsingar.

Ísidór er ákærður fyrir vopnalagabrot og hlutdeild í undirbúningi hryðjuverka.

Einkennst af fyrirframmótuðum hugmyndum

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari lagði það í hendur dómara í hryðjuverkamálinu að ákvarða viðurlög við brotum Ísidórs og meðákærða, Sindra Snæs Birgissonar.

Einar Oddur var síðastur til að flytja mál sitt fyrir dóminum á fjórða degi í aðalmeðferð málsins. Hann talaði hratt en yfirvegað í tæpa klukkustund.

Hann var samsinna Sveini Andra Sveinssyni, verjanda Sindra Snæs Birgissonar, um að rannsókn lögreglu hefði einkennst af fyrirframmótuðum hugmyndum um ásetning og áætlanir, og að málið hefði því ekki verið rannsakað til hlítar.

Einar Oddur sagði að sjaldan hefði verið lagt eins mikið í lögreglurannsókn og þessa og nefndi að á einum tímapunkti hefðu þrjú embætti verið að rannsaka málið. Því væri ótrúlegt að hún hefði ekki farið fram með betri hætti.

Verjandinn sagðist telja að hún yrði eflaust rannsóknarefni í framtíðinni.

Einar Oddur og Sveinn Andri Sveinsson.
Einar Oddur og Sveinn Andri Sveinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin hætta á ferð

Einar Oddur gagnrýndi að Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, hefði einn tekið ákvörðun um að handtaka mennina vegna rannsóknarhagsmuna.

Sama dag og þeir voru handteknir, 21. september árið 2022, gaf ríkislögreglustjóri út tilkynningu þar sem sagði að hættu hefði verið afstýrt.

Einar Oddur sagði það vera skýrt að engin yfirvofandi hætta hefði verið til staðar.

Hann sagði að eftir blaðamannafund sem var haldinn 22. september hefði almenningur verið skilinn eftir með fleiri spurningar en svör.

Einar Oddur gagnrýndi skýrslur Europol sem lögreglan studdist við í málinu og taldi að Europol hefði oftúlkað málið. 

Þá sagði hann að allt hefði verið lagt út á versta veg í ákæru, bæði samskiptagögn og netgögn.

1.600 blaðsíður af samskiptum

Ísidór er sakaður um að eiga hlutdeild í undirbúningi hryðjuverka. Einar Oddur sagði að til þess að verða sakfelldur fyrir þá hlutdeild yrði að liggja fyrir að Ísidór vissi um ráðagerðir Sindra í að fremja hryðjuverk og hefði sama markmið og Sindri. Slíkar ráðagerðir hefðu ekki verið fyrir hendi.

Ísidór sagði fyrir dómi að hann hefði ekki talið að Sindri ætlaði að fremja hryðjuverk.

Einar Oddur sagði ekkert benda til ásetnings í verki og að rangar ályktanir hefðu verið dregnar af samtali ákærðu.

Hann sagði Sindra og Ísidór ekki hafa átt í hótununum né verið með yfirlýsingar um voðaverk í samskiptum sínum.

Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson.
Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útópískar fantasíur

Einar Oddur sagði að í samskiptum tvímenninganna hefði legið augljós kaldhæðni og útópískar fantasíur. Hann sagði mikilvægt að lesa samskiptin í heild til að meta þau, en þau eru yfir 1.600 blaðsíður í málsgögnum.

Hann sagði það vera verulega vafasamt að telja netgrúsk hafa æðri tilgang og að í dag ætti fólk varla átt samtöl án þess að „gúggla“ hitt og þetta.

Einar Oddur sagði að samskipti tvímenninganna hefðu verið rituð með það að leiðarljósi að þau yrðu ekki gerð opinber og því leyfðu þeir sér að tala með óvarlegum og ósmekklegum hætti. Hann sagði að það skyldi vera í forgrunni að samskiptin leiddu ekki til aðgerða.

Sakborningarnir hafa játað að þrívíddarprenta vopn og sagði Einar Oddur það skýrt að það hefði verið til tekjuöflunar, ekki til neins annars. Sindri sagðist fyrir dómi hafa fengið greitt í fíkniefnum.

Ísidór „opin bók“

Einar Oddur sagði að Ísidór hefði verið sem „opin bók“ í öllu málinu.

Hann hefði viðurkennt að hafa sankað að sér alls konar efni og viðurkennt að hafa pólitískar skoðanir sem mörgum þykir varhugaverðar. Þær skoðanir hefðu ekki stigmagnast á einhverjum tímapunkti, líkt og lögregla heldur fram, og þá hefði Ísidór ekki reynt að hafa áhrif á skoðanir Sindra.

Aðalmeðferð í hryðjuverkamálinu lauk síðdegis og munu dómararnir þrír nú taka málið til dóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert