Fulltrúi Europol: Komu 100% í veg fyrir hryðjuverk

Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson.
Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fulltrúi frá Europol bar vitni í hryðjuverkamálinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og sagðist standa algjörlega við niðurstöðu stofnunarinnar um að íslenska lögreglan hefði komið í veg fyrir hryðjuverk Sindra Snæs Birgissonar og Ísidórs Nathanssonar.

Alls komu 24 vitni fyrir dóminn í málinu á tveimur dögum, fyrir utan skýrslutökur yfir sakborningunum tveimur sem fóru fram á fimmtudag.

Í dag voru það helst lögreglumenn og aðrir sérfræðingar sem komu að rannsókn málsins sem báru vitni.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari mætti eftir hádegi til þess að hlýða á vitnaskýrslu fulltrúa Europol.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari árið 2021.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari árið 2021. mbl.is/Hanna

Prótein og sterar

Fulltrúinn kaus að gefa ekki upp nafn sitt fyrir dómi af öryggisástæðum, en maðurinn er deildarstjóri deildar innan Europol sem rannsakar öfga-hægrihryðjuverkastarfsemi. Hann hefur verið sérfræðingur á því sviði frá árinu 2018 og nefndi að deildin fengi yfir 100 mál á ári inn á borð til sín.

Maðurinn undirritaði tvær skýrslur Europol sem liggja fyrir í málinu og íslenska lögreglan studdist við.

Í skýrslunum var farið yfir samskipti sakborninganna og hugrenningar þeirra og áætlanagerð í undirbúningi meintra hryðjuverka.

Niðurstaða skýrslna Europol er að íslenska lögreglan hafi 100% örugglega komið í veg fyrir hryðjuverk miðað við þau sönnunargögn sem Europol hafði undir höndum. Fulltrúinn sagðist standa algjörlega við þá niðurstöðu enn þann dag í dag.

Í lokaköflum skýrslnanna er getið um niðurstöður og ályktanir og sagði fulltrúinn að ályktanir væru ráð til íslensku lögreglunnar um hvað þyrfti að rannsaka frekar. Ályktanirnar sagði hann vera byggðar á viðamikilli reynslu deildarinnar.

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs, Ísidór og Sindri.
Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs, Ísidór og Sindri. mbl.is/Hákon

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi Ísidórs, spurði af hverju væri minnst á prótein og stera sem fundust á heimili Ísidórs í skýrslunum.

Fulltrúinn minntist á að í stefnuyfirlýsingu Anders Breivik, sem oft hefur verið minnst á í aðalmeðferðinni, hafi verið talað um ákjósanlegt mataræði. Hann sagði að Breivik hefði notað sama prótein og fannst heima hjá Ísidóri. Því væri það viðeigandi þáttur þar sem sakborningarnir hefðu „dáð“ Breivik.

Þá taldi Breivik að mjög gott væri að vera á sterum, en innkaupalisti með sterum og æfingaprógrammi fannst í fórum Ísidórs.

Dagsetning árásar oftast ekki ákveðin fyrir fram

Sakborningarnir leituðu meðal annars upplýsinga um hvenær árshátíð lögreglu yrði haldin. Fulltrúi Europol taldi að þeir hefðu annaðhvort gert það til þess að gera árshátíðina að skotmarki vegna andstöðu sakborninganna við stjórnvöld eða til þess að vera vissir um að lögregla væri ekki á einhverjum öðrum tilgreindum stað þegar árás yrði gerð.

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra, spurði fulltrúann hvort það lægi fyrir hvers eðlis og hvenær árás hefði átt að eiga sér stað.

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður.
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúinn sagði að hryðjuverkamenn ákveddu oftast ekki dagsetningu voðaverka sinna fyrr en sama dag. Hann nefndi í því samhengi árás Brentons Tarrants á Nýja-Sjálandi árið 2019 og að hann hefði framkvæmt hryðjuverkin er hann var að verða uppiskroppa með fjármuni.  

Sveinn Andri nefndi að Tarrant og Breivik væru ekki sakborningar í þessu máli.

Fulltrúinn taldi að voðaverk Sindra og Ísidórs hefðu átt að vera ofbeldisfull hægri-öfgahryðjuverk sem leiddu til þess að margir, sem þeir teldu vera svikara, létu lífið. 

Ísidór bjó til stefnuyfirlýsingu

Á eftir fulltrúa Europol kom lögreglukona sem rannsakaði tölvu Ísidórs.

Hún sagði „afgerandi“ mikið af efni á tölvu hans hafa verið tengt öfgahyggju. Hún nefndi þó að það hefði verið annað efni á tölvunni, en öfgahyggjuefnið hafi verið virkilega stór hluti.

Þá fannst upphaf að stefnuyfirlýsingu, eða manifesto, sem algengt er að hryðjuverkamenn búi til, á tölvu Ísidórs. Skjalið var vistað undir heitinu „manifesto“.

Ísidór og Einar Oddur verjandi hans.
Ísidór og Einar Oddur verjandi hans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þar ritaði hann meðal annars: „Að flýta fyrir – gas, gas, gas. Ég er þreyttur á gangi máli. Ég er þreyttur á fjölmenningu. Ég er þreyttur á öfga-feminisma. Ég er þreyttur á „mannréttindum“.“

Síðar ritaði hann: „Samkynhneigð er ekki náttúruleg. Samkynhneigð er geðsjúkdómur.“ Á fimmtudag sagðist Ísidór telja að barnagirnd og samkynhneigð væru tengdir geðsjúkdómar.

Þá nefndi lögreglukonan að bakgrunnsmynd á tölvu Ísidórs hefði verið af svokölluðu sonnenrad-merki sem nasistar notuðu. Ísidór hefur sjálfur lýst sér sem rasista og einangrunarsinna.

„Shock attack“ á lögreglustöðina á Hverfisgötu

Næst bar sérfræðingur hjá ríkislögreglustjóra vitni sem sérhæfir sig í greiningu á ofbeldis- og áhættuhegðun.

Hún kom meðal annars að gerð mata ríkislögreglustjóra er vörðuðu hættu á því að Sindri og Ísidór gerðu árás. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að „miklar líkur“ væru á því að Sindri myndi fremja voðaverk væri ekkert gert til að þess að koma í veg fyrir það. Þá sagði í matinu að mikilvægt væri að Sindri fengi viðeigandi aðstoð.

Hún fór yfir nokkur atriði í samskiptum Sindra og Ísidórs sem eiga samsvörun í stefnuyfirlýsingu Breiviks. Hún nefndi meðal annars „shock attack“ og „A og B traitors“ þar sem vísað er til þess að gera eigi árás sem kemur að óvörum og hafa tilgreinda hópa til að ráðast á.

Tvímenningarnir minntust á að gera „shock attack“ á lögreglustöðina á Hverfisgötu.

Sérfræðingurinn sagðist meta samskipti sakborninganna sem alvarleg er allar hliðar málsins væru metnar. Málflutningur verjanda hefur byggst á því að um grín hafi verið að ræða á milli vina en sérfræðingurinn sagði það mjög þekkt að svartur húmor sé notaður í samskiptum ofbeldismanna. Hún sagði það mikilvægt að setja samskiptin í samhengi við öll önnur gögn málsins, og átti þar meðal annars við aðgengi sakborninganna að vopnum.

Fjöldamorð sýnt í dómsal

Er dómþing beið eftir næsta vitni bað Karl Ingi Vilbergsson saksóknari um að myndskeiðið af árás Tarrant á Nýja-Sjálandi árið 2019 yrði sýnt. Tarr­ant streymdi mynd­skeiðinu af árás­inni í beinni út­send­ingu á Face­book úr búkmyndavél. Alls lést 51 í árásinni.

Ísidór hafði vistað myndskeiðið undir heitinu „brent er guð“.

Sveinn Andri og Einar Oddur verjendur mótmæltu því harðlega og sögðu það vera óþarft. Dómari skráði það en ákvað samt að heimila saksóknara að sýna brot úr myndskeiðinu. Varað var við innihaldi þess en myndskeiðið er vægast sagt átakanlegt.

Sveinn Andri og Karl Ingi saksóknari.
Sveinn Andri og Karl Ingi saksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á myndskeiðinu sést Tarrant keyra að mosku og hlusta á tónlist. Tarrant nær í riffil úr skotti bílsins og gengur upp að moskunni þar sem hann skýtur fólk af stuttu færi. Skelfing fólksins heyrist vel.  

Tarrant nær síðan í annað skothylki í skott bílsins og heldur áfram að myrða fólk. Þá sést fólk látið í hrúgum á gólfi moskunnar og skýtur Tarrant það aftur.

Sindri horfði í kjöltu sér á meðan myndskeiðið var sýnt en Ísidór var ekki viðstaddur dómþing í dag.

Karl Ingi nefndi að Tarrant hafði verið með AR-15-riffil, líkt og fannst á heimili Sindra. Sveinn Andri sagði að ekki væri þó um eins riffil að ræða.

Skytta prufaði þrívíddarprentuðu vopnin

Þá kom lögreglumaður fram fyrir dóminn sem gerði skotvopnaskýrslu um tvö hálfsjálfvirk vopn og skotgeyma sem Sindri og Ísidór þrívíddarprentuðu. Sindri játaði fyrir dómi að hafa prentað og selt fimm stykki.

Vopnin voru send til dönsku lögreglunnar til rannsóknar. Skytta prufaði vopnin og miðuðu þau ágætlega að sögn lögreglumannsins. Er bilanir komu upp var auðvelt að laga vopnin.

Munir sem lögreglan lagði hald á í rannsókninni.
Munir sem lögreglan lagði hald á í rannsókninni. mbl.is/Hólmfríður María

Stigmögnun í ágúst 2022

Síðastur til að bera vitni í dómsmálinu var Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra. Hann kom að gerð áhættumatanna sem minnst var á áður. „Miklar líkur“ voru taldar á að Sindri fremdi voðaverk og „miðlungs til miklar líkur“ í tilfelli Ísidórs.

Hann sagði að ýmis greiningartól væru notuð til að meta líkurnar á ofbeldisverknaði.

Komist var að þeirri niðurstöðu að ákveðin stigmögnun hefði átt sér stað í samskiptum sakborninganna eftir verslunarmannahelgi árið 2022. Þá sendi Sindri eftirfarandi skilaboð á Ísidór: „Ég er á grensunni að fremja fjöldamorð bara núna“.

Sindri sagði fyrir dómi að er hann sendi skilaboðin hefði hann verið búinn að drekka í tvo sólarhringa og að engin meining hefði verið á bak við þau.

Erlendis er mennirnir voru handteknir

Sveinn Andri spurði hvort persónulegar aðstæður sakborninganna hefðu verið skoðaðar við matsgerðina en á þeim tíma voru báðir mennirnir í samböndum. Runólfur sagði að horft væri til þátta sem gætu dregið úr áhættunni en heildarmyndin hefði ráðið úrslitum í niðurstöðum matsins.

Sveinn Andri spurði Runólf hvað hefði orðið til þess að mennirnir voru handteknir og benti hann á að hann hefði verið erlendis í orlofi í september árið 2022 er Sindri og Ísidór voru handteknir.

„Að mínu mati var stigið inn í ískyggilega atburðarás“ sem var byggð á þeim gögnum sem voru að koma fram að sögn Runólfs. Hann benti á að sakborningar vissu að lögregla hefði eftirlit með þeim og þá væri minni tilgangur í þeim aðgerðum. Hann sagði að grunnurinn væri að tryggja öryggi almennings. 

Sveinn Andri spurði þá hvers eðlis meint árás hefði átt að vera og nefndi Runólfur samskipti sakborninganna um Gleðigönguna og Hinsegin daga. Þá lá fyrir að þetta ár voru gerðar árásir á samkynhneigða víða um Evrópu, meðal annars í Ósló.

Karl Ingi saksóknari benti á að Runólfur stýrði ekki rannsókninni og því væri það ekki hans að meta rannsókn málsins.

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn öryggis- og greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem var í forsvari rannsóknarinnar, bar vitni fyrir dómi á föstudag.

Enn talin miðlungshætta á hryðjuverkum

Að lokum var minnst á það að í desember árið 2022 var viðbúnaðarstig lögreglu vegna hryðjuverka hækkað eftir að mennirnir voru látnir lausir.

Viðbúnaðarstigið er enn í gildi, það er að segja að talin er miðlungshætta á hryðjuverkum hér á landi.

Runólfur sagði að það hefði verið gert á grundvelli verklagsreglna og að vissulega hefði það verið þáttur í að hækka viðbúnaðarstigið að mennirnir voru látnir lausir.

Hann nefndi aftur að þetta ár hefði verið mikið um árásir á samkynhneigða í Evrópu og því var talin þörf á að leggja meiri áherslu á að tryggja öryggi á samkomustöðum samkynhneigðra hér á landi.

Sveinn Andri spurði Runólf hvort hækkun eða lækkun á viðbúnaðarstiginu væri háð því hvernig dómsmálið færi. Hann sagði að 13 áhættumatsþættir hefðu verið teknir til skoðunar og að hryðjuverkamálið væri einn af þessum 13 þáttum.

Á morgun lýkur aðalmeðferð með málflutningi sækjanda og verjenda.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert