Segja aðgerðir mótmælenda á álráðstefnu mikil vonbrigði

Frá blaðamannafundinum á Nordica í dag.
Frá blaðamannafundinum á Nordica í dag. mbl.is

Forsvarsmenn Alcoa-Fjarðaráls og Landsvirkjunar lýstu yfir miklum vonbrigðum með mótmælendur sem ruddust inn á alþjóðlegu ráðstefnuna um áliðnaðinn Hótel Nordica í dag og slettu grænum vökva yfir ráðstefnugesti. Kom þetta fram á blaðamannafundi á Hótel Nordica nú fyrir stundu.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa-Fjarðaáls, sögðu aðgerðirnar hafa komið sér algerlega í opna skjöldu og að þeir byggjust ekki við að íslensk náttúruverndarsamtök hefðu staðið að þessu enda hefðu samskipti við þau almennt verið á friðsamlegum nótum og þau væru ekki vön að starfa með þessum hætti. Jóhannes Geir sagði þetta geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og t.d. skaðað íslenska ferðaþjónustu.

Lynnette Northey, frá breska ráðgjafafyrirtækinu CRU sem sá um að skipuleggja ráðstefnuna, lofaði allar aðstæður á Íslandi og viðmót fólks hér, og sagðist alls ekki hafa átt von á mótmælum sem þessum. Þetta væri í tíunda sinn sem CRU skipulegði ráðstefnu sem þessa um áliðnaðinn í heiminum, en að aldrei hefðu aðgerðir af þessu tagi átt sér stað.

Tveir karlar og ein kona ruddust inn í ráðstefnusalinn í hádeginu.

„Þetta gerðist klukkan 12:11, það voru þrír aðilar sem komust inn í ráðstefnusalinn og skvettu úr tveimur fötum sem innihéldu væntanlega súrmjólk blandaða vatni og grænum lit. Við teljum að þetta hafi ekki verið málning, en tjón varð samt sem áður á tölvubúnaði, innréttingum og á fatnaði ráðstefnugesta, en það á eftir að koma í ljós hvort liturinn náist úr,“ sagði Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Reykjavík.

Lögregla var kölluð til vegna atviksins.
Lögregla var kölluð til vegna atviksins. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert