Ten Hag til Bayern?

Forráðamenn Bayern München hafa mikið álit á Erik ten Hag.
Forráðamenn Bayern München hafa mikið álit á Erik ten Hag. AFP/Oli Scarff

Þýska knattspyrnufélagið Bayern München hefur áhuga á að ráða Erik ten Hag, knattspyrnustjóra Manchester United, í starf knattspyrnustjóra karlaliðsins.

Sky Sports greinir frá því að ten Hag sé á blaði hjá Bæjurum en Thomas Tuchel lætur af störfum hjá liðinu að loknu yfirstandandi tímabili.

Xabi Alonso, Ralf Rangnick og Julian Nagelsmann hafa allir þegar hafnað því að taka við Bayern og þarf þýska stórveldið því að leita annað.

Hugsar einungis um United

Bayern hefur sett sig í samband við Kees Vos, umboðsmann ten Hag, til þess að spyrjast fyrir um hvort Hollendingurinn myndi hafa áhuga á því að taka við starfinu.

Ten Hag hefur verið tilkynnt um áhuga Bæjara en er með fulla einbeitingu á því að ljúka tímabilinu með Man. United á sem bestan hátt.

Liðið er í áttunda sæti í ensku úrvalsdeildinni sem stendur og á fjóra leiki eftir í henni auk úrslitaleiks í ensku bikarkeppninni gegn Manchester City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert