„Vorum á hælunum frá fyrstu mínútu“

Sexfaldur Íslandsmeistari Finnur Freyr Stefánsson átti ekki skemmtilegt kvöld á …
Sexfaldur Íslandsmeistari Finnur Freyr Stefánsson átti ekki skemmtilegt kvöld á hliðarlínunni í þetta skiptið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals var mjög óánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld þegar liðið fékk skell á heimavelli, 105:84, gegn Njarðvík í undanúrslitum Íslandsmóts karla.  

Er það vel skiljanlegt því Valur var á heimavelli og þarf að fara 0:1 til Njarðvíkur í næsta leik. Er tap á heimavelli í fyrsta leik ekki erfiður biti að kyngja?

„Jú og sérstaklega út af þessari slöku frammistöðu. Við vorum á hælunum frá fyrstu mínútu og náðum einhvern veginn aldrei að binda saman tvö stopp. Við fórum einnig illa með góð færi í sókninni snemma leiks og vorum ekki nógu miklir töffarar til að setja skotin niður. Eitt leiddi af öðru. En einnig ber að hrósa Njarðvíkurliðinu fyrir að spila frábærlega og þeir tættu vörnina hjá okkur í sundur,“ sagði Finnur þegar mbl.is ræddi við hann á Hlíðarenda. 

Milka var mjög drjúgur í fyrri hálfleik og fékk að athafna sig nærri körfunni. Er það eitthvað sem Valsmenn þurfa að nálgast með öðrum hætti eða myndi það opna bara fyrir aðra?

„Við þurfum að skoða þetta allt í heild sinni. Ekki síst með tilliti til þess hversu miklu máli skipti taktíkin og hversu máli skipti frammistaðan þetta kvöldið. Mér fannst okkur alla vega aldrei takast að láta þeim líða illa á vellinum á nokkurn skapaðan hátt. Það böggar mig mest í augnablikinu.“

Gerum hvað sem þarf til að komast áfram

Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit en þar hafa Valsmenn leikið síðustu tvö skipti. Verður þetta löng rimma í undanúrslitunum? 

„Já við ætlum að berjast til síðasta blóðdropa og þetta gæti orðið löng sería en við þurfum að ná í sigur í næsta leik. Við munum gera hvað sem þarf að gera til að komast áfram,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert