Fjárfesting sem skilar árangri

Hvernig megi leggja mat á félagslegar framfarir er spurning sem …
Hvernig megi leggja mat á félagslegar framfarir er spurning sem bæði hið opinbera og fyrirtæki standa frammi fyrir. mbl.is/Þórður Arnar

Félagslegar framfarir og verg landsframleiðsla er kannski ekki eitthvað sem fólk tengir saman við fyrstu sýn en svo er raunin. Fjölmargar aðferðir eru til að meta árangur af fjárfestingu í félagslegum framförum og dæmin sýna að þær skila árangri.

Fjallað var um hvernig megi leggja mat á félagslegar framfarir út frá vísitölu félagslegra framfara (VFF) (e. Social Progress Index) á fundi í Arion banka í vikunni en vísitalan mælir félagslegar framfarir landa og svæða. 

VFF-vísitalan er reiknuð árlega fyrir 133 lönd í heiminum en hún mælir hve vel hefur tekist til að tryggja íbúum aðgengi að grunnþörfum, tryggja velferð og skapa tækifæri til að bæta líf sitt. Meðal þátta í VFF-vísitölunni eru aðgangur að heilsugæslu, menntun, hagkvæmu húsnæði og staða jafnréttismála og trúfrelsi.

Frétt mbl.is: Skandinavía skarar fram úr

Frétt mbl.is: Ísland neðst af Norðurlandaþjóðunum

Að sögn þeirra sem koma að mælingunni hér á landi er ekki einfalt að mæla félagslegar framfarir en við útreikninginn á vísitölunni er sjónum beint að árangri frekar en fjárhagslegum framlögum til viðkomandi málaflokks.

Cameron leitaði til norrænu ríkjanna

Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, segir að fundist hafi sterkt samband milli VFF og VLF og þessu séu stjórnmálamenn farnir að gera sér grein fyrir. Til að mynda hafi David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, haft samband við starfsbróður sinn í Svíþjóð, John Fredrik Reinfeldt, á sínum tíma og óskaði eftir því að Norðurlandaþjóðirnar og Bretland færu í samstarf vegna þess að hann hafði tekið eftir því að norrænu ríkin bjuggu við mikla velferð í alþjóðlegum samanburði og háan jafnan hagvöxt. Þessum vettvangi var komið á og er hann enn við lýði að sögn Ragnhildar.

Stuðningur skilar fjárhagslegum og félagslegum árangri

Að sögn Sigurðar Páls Haukssonar, forstjóra Deloitte, standa þjóðfélög frammi fyrir þeirri áskorun að finna leiðir til að veita meiri velferð til aukins fjölda fyrir minna fjármagn. Til að mynda séu gerðar auknar kröfur til menntakerfisins, álag á heilbrigðiskerfið eykst ár frá ári. Það búa sífellt fleiri við skerta starfsgetu og innistæðan hjá ríkissjóði dugar ekki til.

Sigurður Páll tók á fundinum dæmi frá Deloitte í Danmörku af 17 ára pilti sem er greindur með asperger-heilkennið. Í grunnskóla nýtur hann stuðnings en á í erfiðleikum með félagslega þáttinn og þrífst best í skipulögðu umhverfi.

Tvö úrræði eru í boði:

Það fyrra miðar að almennum húsnæðisstuðningi, verndaður vinnustaður, skammvinn atvinnuþátttaka og lífeyrir. Árlegur kostnaður er áætlaður 850 þúsund danskar krónur, sem svarar til 13,8 milljóna íslenskra króna, það sem eftir er ævinnar.

En í seinna úrræðinu er um sérstakan stuðning að ræða í menntun á sviði hugbúnaðarverkfræði, húsnæðisstuðningur vegna skólagöngu og er kostnaður áætlaður 750 þúsund danskar krónur á ári til þriggja ára. Mögulega lengri tíma. 

Að sögn Sigurðar vantar okkur gjarnan upplýsingar um árangur tiltekinna aðgerða og mat á þeim árangri er ekki oft samræmt líkt og gert er við mælingu á VFF. Þetta er viðkvæmt málefni og okkur hættir til að vilja síður mæla árangur eigin erfiðis og bera saman árangur ólíkra aðgerða. Eins getur reynst þrautin þyngri að ákveða hvernig skuli forgangsraða og hætta er á að ákvarðanir séu ekki nægjanlega upplýstar. 

Hann segir að þetta eigi ekki bara við hið opinbera því mat á félagslegum áhrifum fjárfestinga á vel við á fjölmörgum sviðum og tók sem dæmi um hugmyndir verkfræðinga um að reisa wasabi-verksmiðju á Íslandi. Áhrifanna gæti langt út fyrir fyrirtækið sjálft og það sama eigi við um fleiri slík verkefni.

Sigurður tekur sem dæmi af því hvernig megi meta árangur af fjárfestingum í félagslegum framförum. Ein aðferðafræðin var þróuð af Havard Business School, svokölluð SROI-aðferðarfræði (e. Social Return on Investment).

Að sögn Sigurðar er hún í grunninn kostnaðar- og ábatagreining sem byggi á fjárhagslegum stærðum. Kostnaður við tileknar aðgerðir og félagslegan ábata þeirra er þannig borin saman. Með því fást samanburðarhæfar niðurstöður sem gerir okkur kleift að mæla árangur ólíkra aðgerða. 

Mat á hinum félagslega ábata er grunnforsenda þessarar aðferðafræði en félagslegur ábati endurspeglast ekki strax í fjárhagslegum stærðum heldur til lengri tíma.

What Works 2017

Í fyrra var haldin alþjóðleg ráðstefna um mat á félagslegum framförum á Íslandi þar sem fjölmargir þekktir fyrirlesarar stigu í pontu. Ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn í ár og verður ráðstefnan haldin hér í apríl undir heitinu What Works 2017

Ráðstefnan er haldin á vegum alþjóðlegrar stofnunar í Washington, Social Progress Im­perati­ve (SPI) en hún heldur utan um mælingu VFF. Rósbjörg Jónsdóttir er framkvæmdastjóri Cognitio og fulltrúi SPI á Íslandi. Hún fór yfir undirbúning ráðstefnunnar hér á landi en auk Cognitio og Deloitte taki Arion banki og forsætisráðuneytið þátt í samstarfinu hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK