Verðbólgan þrálátari en gert hafði verið ráð fyrir

Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, aðal­hag­fræðing­ur Seðlabanka Íslands.
Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, aðal­hag­fræðing­ur Seðlabanka Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seðlabankinn spáir því nú að verðbólga verði þrálátari en fyrri spár bankans höfðu gert ráð fyrir. Þannig var verðbólga á fyrsta ársfjórðungi þessa árs 6,7% að meðaltali, en spá bankans í febrúar hafði gert ráð fyrir 6,3% verðbólgu. Á öðrum ársfjórðungi spáir bankinn nú 6% verðbólgu og á síðasta ársfjórðungi ársins 5,3% verðbólgu. Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir að þarna muni um einu prósentustigi frá fyrri spám.

Þetta var meðal þess sem kom fram á fundi peningastefnunefndar í dag í kjölfar vaxtaákvörðunar nefndarinnar. Var ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%.

Verðbólga í apríl minnkaði niður í 6%, en hafði áður verið 6,8% í mars og nemur lækkunin 3,9 prósentustigum frá í apríl í fyrra. Benti Þórarinn á að verðbólgan hefði ekki verið minni síðan í janúar 2022, rétt fyrir árás Rússa á Úkraínu.

Undirliggjandi verðbólga mælist nú 5% og hefur minnkað um 2,5 prósentustig milli ára og verðbólga án húsnæðis 3,9% og hefur hún hjaðnað um 4,8 prósentustig milli ára.

Húsnæði og þjónusta þráast við

Þegar nánar er skoðað hvað liggur að baki verðbólgutölunum sést að innfluttar vörur hafa hækkað um 1,7% milli ára, innlendar vörur um 5% og húsnæði um 13%. Þá hefur þjónusta hækkað um 6%. Hafa vöruliðirnir verið að lækka undanfarna mánuði, en þjónustan verið nokkuð þrálát og húsnæðið tekið stökk upp á við eftir að hafa verið í lækkunarfasta árið 2022 og inn á mitt ár 2023.

Þórarinn sagði á fundinum að Seðlabankinn geri nú ráð fyrir meiri hækkun húsnæðis í ár en í fyrri spám og þar hafi staðan á Reykjanesi meðal annars áhrif.

Spá 5,3,% verðbólgu í árslok

Sagði Þórarinn að meiri spenna væri í þjóðarbúinu en fyrri spár höfðu gert ráð fyrir, en á móti því væri að vega að spár um þróun launakostnaðar hefðu lækkað sem og að innflutt verðbólga væri minni en áætlað hafi verið. Hins vegar gengi hér hægar að ná niður verðbólgu en í öðrum löndum.

Spá bankans gerir nú ráð fyrir að ársverðbólgan á þessu ári verði 5,9% og að verðbólgan verði 5,3% í árslok. Svo gerir bankinn ráð fyrir ársverðbólgu upp á 3,9% á næsta ári og 2,8% árið 2026.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK