Jón Ólafur: Vonandi ekki hrun

„Þetta kemur gríðarlega á óvart og ég er bara mjög þakklátur fyrir þetta. Þetta er mjög mikill heiður,“ sagði Jón Ólafur Daníelsson þjálfari ÍBV auðmjúkur eftir að hafa verið útnefndur besti þjálfari umferða 1-9 í Pepsideild kvenna í knattspyrnu í dag.

ÍBV vann sér sæti í úrvalsdeildinni síðastliðið haust og hefur komið af krafti inn í Íslandsmótið og er eftir fyrri helming þess í 3. sæti deildarinnar. Liðið byrjaði mótið á að halda marki sínu hreinu 5 leiki í röð en svo seig aðeins á ógæfuhliðina þar til liðið vann svo Íslandsmeistara Vals í síðustu umferð.

„Ég hefði getað sagt með fullri vissu fyrir Íslandsmótið að við gætum unnið öll lið og að sama skapi tapað fyrir öllum liðum. En ég átti ekki von á að við yrðum á þessum stað eftir níu leiki. Við lentum í einhverjum öldudal en vonandi munum við halda sömu vinnu áfram sem lögð var í Valsleikinn,“ sagði Jón Ólafur sem telur helsta styrk Eyjaliðsins felast í að halda markinu hreinu.

„Það sem af er hefur vörn og markvarsla verið okkar mesti styrkleiki en við erum að feta okkur í innihaldsmeiri sóknarleik,“ sagði Jón Ólafur. En hvað sér þjálfarinn fyrir sér að gerist á seinni helmingi Íslandsmótsins?

„Það verður vonandi ekki hrun. Ég ætla bara að vona að við náum að halda haus í þessu og vera áfram í toppbaráttunni. Ég hef trú á að við munum geta staðið okkur vel áfram,“ sagði Jón Ólafur sem bjóst ekki við að standa í sömu sporum, það er að segja sem besti þjálfari deildarinnar, þegar keppni lýkur í haust.

„Nei, ég ætla nú að veðja á einhvern annan,“ sagði Eyjamaðurinn léttur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert