Gott að hafa ekta Eyjamann í teyminu

Jóhannes Harðarson, þjálfari ÍBV, og Mees Siers einn þeirra erlendu …
Jóhannes Harðarson, þjálfari ÍBV, og Mees Siers einn þeirra erlendu leikmanna sem liðið hefur fengið í sínar raðir í vetur. Morgunblaðið/Ívar

Það kemur Jóhannesi Harðarsyni ekki mikið á óvart að lærisveinum hans í ÍBV sé spáð falli í Pepsi-deild karla af fyrirliðum og forráðamönnum, miðað við þá umræðu en í viðtali við mbl.is. kveðst Jóhannes þó pollrólegur yfir spánni og segir fæsta vita hvað í Eyjaliðinu býr.

„Nei það gerir það ekki ekki miðað við hvernig spárnar hafa verið að undanförnu. Við erum ekki djúpt hugsi yfir því hvernig spárnar hafa litið út. Miðað við breytingarnar sem hafa orðið og stöðuna í fyrra,“ sagði Jóhannes og hélt áfram.

„Ég held að fæstir viti hvað við höfum fengið í staðinn. Við erum alveg rólegir yfir þessu, ég einbeiti mér að því að hugsa um það hvernig við ætlum að vinna Fjölni á sunnudaginn,“ sagði Jóhannes sem segir spána litlu skipta og virki, ef eitthvað er, aðeins sem spark í rasinn á sínum mönnum.

ÍBV hefur misst sterka leikmenn á borð við Þórarinn Inga Valdimarsson til FH og Brynjar Gauta Guðjónsson til Stjörnunnar en Jóhannes segir þá leikmenn sem hafa komið til ÍBV í vetur vegi vel upp á móti.

„Ég held að þær séu jákvæðar og okkur í vil. Ég er mjög ánægður með þessa stráka sem við höfum fengið inn og tel að við séum með meiri breidd í hópnum heldur en var í fyrra. Þessir strákar sem við höfum fengið að utan eru allir mjög öflugir leikmenn sem eiga eftir að setja sitt mark á þetta,“ sagði Jóhannes.

Ætlum að klifra eins hátt og hægt

Markmiðin eru skýr, það er að gera betur en í fyrra þegar liðið 10. sæti, einu stigi frá fallsæti.

„Við ætlum að reyna að klifra upp þessa töflu, eins hátt og hægt er. Við höfum ekkert sérstakt sæti í huga, en við ætlum að bæta árangurinn í fyrra, það er markmið númer eitt, við höfum ákveðin markmið um það hvernig fótbolta við viljum spila. Við viljum komast eins langt á því og hægt er og byggja á því til næstu ára,“ sagði Jóhannes.

Honum til aðstoðar verður Eyjamaðurinn Tryggvi Guðmundsson en hann mun verða búsettur ásamt Jóhannesi í Vestmannaeyjum í sumar.

„Ég er mjög sáttur við samstarfið hingað til og hvernig Tryggvi hefur komið inn í þetta. Það er mjög gott að hafa einn ekta Eyjamann í þjálfarateyminu sem veit nákvæmlega um hvað þetta snýst í Vestmannaeyjum og hvað þarf til að ná upp þeirri stemningu sem við erum að leitast eftir,“ sagði Jóhannes.

Leikmannahópur Eyjamanna er svo gott sem klár og að sögn Jóhannesar er liðið ekki í neinni örvæntingarfullri leit að leikmanni.

Spá fyr­irliða og for­ráðamanna 2015:

1. FH 416 stig
2. Stjarn­an 373 stig
3. KR 348 stig
4. Breiðablik 331 stig
5. Val­ur 257 stig
6. Vík­ing­ur 242 stig
7. Fylk­ir 228 stig 
8. Kefla­vík 189 stig
9. Fjöln­ir 116 stig
10. ÍA 108 stig
11. ÍBV 107 stig
12. Leikn­ir 93 stig

Tryggvi lék síðast með Eyjamönnum árið 2012.
Tryggvi lék síðast með Eyjamönnum árið 2012. hag / Haraldur Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert