Hörður og félagar unnu toppliðið

Hörður Björgvin Magnússon í baráttunni.
Hörður Björgvin Magnússon í baráttunni. Heimasíða Cesena

Hörður Björgvin Magnússon og félagar hans í ítalska B-deildarliðinu Cesena unnu topplið Cagliari 2:0 á Stadio Orogel leikvanginum í Cesena í kvöld.

Cagliari hefur leikið frábærlega það sem af er tímabili og situr í toppsæti ítölsku B-deildarinnar, en liðið náði sér þó ekki á strik gegn Cesena.

Liðið fékk vítaspyrnu á 35. mínútu leiksins. Nicola Giannetti lét sig þá falla í teignum og gleypti dómarinn við því. Hörður fékk gult spjald fyrir brotið.

Alfred Gomis sá þá við Giannetti í markinu. Cesena brást vel við eftir spyrnuna því í síðari hálfleik kom miðjumaðurinn knái, Stefano Sensi, liðinu yfir áður en Milan Djuric bætti við öðru marki tíu mínútum fyrir leikslok.

Cesena hefur ekki tapað í sex leikjum í röð en Hörður Björgvin lék allan leikinn hjarta varnarinnar.

Cesena er í 4. sæti deildarinnar með 46 stig, tveimur stigum á eftir Pescara sem er í 3. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert